Tugir Þórsara á Nettómóti suður með sjó

Reykjanesið fylltist af körfuboltakrökkum um liðna helgi. Mynd: Stefán Þór Pétursson
Reykjanesið fylltist af körfuboltakrökkum um liðna helgi. Mynd: Stefán Þór Pétursson

Frá unglingaráði körfuknattleiksdeildar:

Síðastliðna helgi héldu 59 börn á aldrinum 6-10 ára frá Þór til Keflavíkur á Nettómót. Óhætt er að segja að aldrei hafi Þór verið með eins mörg lið og í ár en 11 lið klæddust Þórsbúningnum að þessu sinni. Mótið fór sérlega vel fram og var úr nægu að velja af afþreyingu milli leikja. Mótið hófst snemma á laugardagsmorgun og spilaði hvert lið 5-6 leiki. Um laugardagskvöldið var svo slegið til kvöldvöku í íþróttarhúsinu við Sunnubraut þar sem úrval leikmanna úr kvenna- og karlaliði Keflavíkur og Njarðvíkur tóku þátt í þriggja stiga skotkeppni við mikla lukku barnanna. Sunnudagurinn hófst einnig snemma en eftir morgunmat kláruðu liðin sína leiki áður en haldið var á verðlaunaafhendingu og lokahátíð mótsins. Vert er að þakka öllum þeim Þórsurum og foreldrum sem tóku þátt í að hjálpa til við liðstjórn, rútustjórn, þjálfun og við almennan undirbúning. Ekki síst þarf einnig að þakka öllum þeim börnum sem tóku þátt en Þórsarar voru algerlega til fyrirmyndar á mótinu og ljóst að framtíðin er björt í körfunni hjá Þór.

Áfram Þór, alltaf, allstaðar.

Myndir frá mótinu eru til sölu á sporthero.is og geta foreldrar nálgast þar liðsmyndir með kóðanum TA2609. Liðsmyndir eru ekki komnar inn þegar þessi frétt er birt, en eru væntanlegar. Það var Stefán Þór Pétursson, fulltrúi barnaflokka/viðburðastjóri í unglingaráði körfuknattleiksdeildar, sem sendi okkur fréttir og myndir frá Nettómótinu. 

Smellið á myndina hér að neðan til að opna myndaalbúm.