Veislan heldur áfram

Íþróttahöllin 31. mars klukkan 17 

1. deild kvenna í körfubolta Þór - Snæfell.

Á morgun, föstudag tekur Þór á móti Snæfelli í þriðja leik liðanna í undanúrslitarimmu 1. deildar kvenna í körfubolta.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þessa leiks enda sæti í efstu deild undir. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í úrslitarimmu gegn annað hvort Stjörnunni eða KR en Stjarnan leiðir þá rimmu 2-0.

Hins vegar og það sem skiptir máli er að staðan í rimmu Þórs og Snæfells er 1-1 þar sem liðin hafa unnið sinn heimaleikinn hvort og þeir leikir voru ægispennandi og jafnir. Þór hafði betur í höllinni með tveim stigum en Snæfell hafði betur í Hólminum með fimm stigum.

Leikir þessara liða eru sannkallaðar íþróttaveislur sem engin má láta framhjá sér fara. Í fyrsta leik liðanna sem fram fór í Höllinni var boðið uppá allt sem góður körfubolti getur boðið uppá. Hraði, leikgleði, spenna innan vallar sem utan og það kunnu þeir fjölmörgu áhorfendur svo sannarlega að meta. Þeir áhorfendur sem voru ríflega 170 munu vafalítið mæta aftur þeir vilja ekki missa af svona veisluhöldum. Því er von okkar og trú að enn fleiri áhorfendur mæti nú og njóti þeirra skemmtunar sem í boði er og styðji Þór til sigurs.

Veislan verður einnig utan vallar því fyrir leik og í hálfleik verður grillið sjóðandi heitt og í boði verða safaríkir hamborgarar og drykkir á vægu verði. Miðaverð á leikinn er 2.000 krónur en frítt fyrir 16 ára og yngri.

Þeir sem ekki eiga þess kost að koma á leikinn er bent á að leikurinn verður í beinu streymi á ÞórTV https://www.livey.events/thortv eða smella á myndina neðst í fréttinni.

Enn og aftur bendum við á kosti þess að vera meðlimur í Sjötta manninum, styrktarklúbbi deildarinnar. Allt um styrktarklúbbinn má sjá á meðfylgjandi hlekk https://www.thorsport.is/korfubolti/arskort

Þótt tímasetningin sé óvenjuleg og að sumra mati óhentug þá er engin tími óheppilegur til að komast í alvöru veislu sem þessa.

Leikurinn hefst klukkan 17.00

Áfram Þór alltaf, alls staðar