Knattspyrna: Þrjú mörk og sigur á Seltjarnarnesinu

Maður leiksins. Rafael Victor skoraði tvö af þremur mörkum Þórs í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson - A…
Maður leiksins. Rafael Victor skoraði tvö af þremur mörkum Þórs í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

Þórsarar unnu Seltirninga í Gróttu í 32ja liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar í dag og verða því í pottinum þegar dregið verður fyrir 16 liða úrslitin á morgun.

Seltjarnarnesið er ekki þekkt fyrir lognmollu og segja má að það hafi verið gul viðvörun fyrsta klukkutímann í dag. Heimamenn í Gróttu fengu sjö gul spjöld og Þórsarar þrjú. Vildi svo til að sjöunda spjaldið var annað gula spjaldið á Tareq Shihab og hann því rekinn af velli. Fljótlega eftir það skoraði Rafael Victor fyrsta mark Þórs og bætti svo við öðru tæpum stundarfjórðungi síðar. Bjarki Þór Viðarsson fékk beint rautt spjald undir lok leiksins, en það kom ekki að sök. Sigurinn í höfn og Fannar Daði Malmquist Gíslason bætti við þriðja marki Þórs þegar stutt var til leiksloka.

Sigur á Seltjarnarnesi og Þórsarar komnir áfram í 16 liða úrslit Mjólkurbikarkeppninnar. Drátturinn fyrir 16 liða úrslitin fer fram í hádeginu á morgun. 

Önnur lið í pottinum þegar dregið verður í 16 liða úrslitin: Afturelding, Fjölnir, Fram, Fylkir, Grindavík, HK, ÍA, ÍH, K.A., KR Keflavík, Stjarnan, Valur, Vestri, Víkingur. Er ekki bara best að fara á Ísafjörð eins og handboltastrákarnir?