Knattspyrna: Tveir öruggir sigrar í Lengjubikar

Þór/KA og Þór unnu bæði örugga sigra í fyrstu leikjum liðanna í Lengjubikarnum í gær. Leikur Þórs átti upphaflega að vera í Keflavík, var færður á Áfltanes vegna ástandsins á Reykjanesi, en endaði inni í Garðabæ vegna vallaraðstæðna á Álftanesi.

Þór/KA mætti ÍBV í Akraneshöllinni í riðli 2 í A-deild kvenna. Yfirburðirnir voru miklir, eins og tölurnar sýna, en sigurinn hefði þó getað orðið enn stærri því færin voru fjölmörg. Í Akraneshöllinni bar meðal annars til tíðinda að Margrét Árnadóttir skoraði þrennu í seinni hálfleik og Bríet Fjóla Bjarnadóttir (2010) skoraði sitt fyrsta mark með meistaraflokki. Þá var Hildur Anna Birgisdóttir í fyrsta skipti í byrjunarliði í meistaraflokki. Bríet Fjóla og Hildur Anna höfðu báðar áður komið við sögu í einum leik með meistaraflokki í KSÍ-leik. 

ÍBV - Þór/KA 0-7 (0-2)

  • 0-1 Amalía Árnadóttir (34')
  • 0-2 Karen María Sigurgeirsdóttir (37')
  • 0-3 Margrét Árnadóttir (48')
  • 0-4 Sandra María Jessen (50')
  • 0-5 Margrét Árnadóttir (53')
  • 0-6 Bríet Fjóla Bjarnadóttir (77')
  • 0-7 Margrét Árnadóttir (82').
  • Leikskýrslan (ksi.is)
  • A-deild kvenna, riðill 2 (ksi.is)

Næsti leikur hjá Þór/KA verður gegn Víkingi í Boganum föstudaginn 16. febrúar kl. 17:15.

Leikur á hrakhólum, en öruggur sigur

Þórsarar mættu Njarðvíkingum í riðli 3 í A-deild karla. Þórsliðið lenti í hrakningum með sinn leik. Hann var upphaflega settur á kl. 15 í Keflavík, á gervigrasinu við Nettóhöllina, en vegna ástandsins á Reykjanesi var ákveðið að spila hann á Álftanesi. Það reyndist ekki hægt og á endanum var leiknum seinkað til kl. 17:30 og spilað í Miðgarði í Garðabæ. Þórsarar létu það ekki slá sig út af laginu og unnu öruggan sigur. Þrír leikmenn komu við sögu í fyrsta skipti í meistaraflokksleik með Þór. Rafael Alexandre Romao Victor, sem kom til félagsins frá Njarðvík, var í byrjunarliðinu og hafði skorað sitt fyrsta mark fyrir félagið eftir aðeins 20 mínútur. Einar Freyr Halldórsson (2008) og Atli Þór Sindrason (2006) komu inn á í seinni hálfleik og var þetta þeirra fyrsta innkoma í keppnisleik (KSÍ) í meistaraflokki Þórs.

Njarðvík - Þór 1-5 (0-2)

Næsti leikur Þórs er heimaleikur gegn Stjörnunni í Boganum sunnudaginn 18. febrúar kl. 15.