Ekkert gull sótt í greipar Hauka

KA/Þór náði ekki að sækja stig í Hafnarfjörðinn í dag, lutu í lægra haldi fyrir Haukum, 28-20.

Haukar tóku frumkvæðið í upphafi leiks og náðu fjögurra marka forystu, 5-1, en KA/Þór náði að jafna í 7-7, aftur í 10-10 og komust svo yfir undir lok fyrri hálfleiks, 12-13. Áfram var jafnt á flestum tölum í upphafi síðari hálfleiks, en þá fór að draga í sundur með liðunum. Forysta Haukanna var orðin fjögur mörk þegar stundarfjórðungur var eftir og þá komu fjögur mörk frá þeim í röð sem má segja að hafi gert út um leikinn, munurinn orðinn sjö mörk þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum. Okkar stelpur náðu ekki að snúa leiknum við eftir þetta og máttu þola átta marka tap, 28-20.

Hin brasilíska Nathalia Soares Baliana skoraði níu mörk í dag, Lydía Gunnþórsdóttir fjögur, Júlía Sóley Björnsdóttir þrjú og þær Anna Þyrí Halldórsdóttir, Aþena Sif Einvarðsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir og Unnur Ómarsdóttir eitt mark hver. Matea Lonac varði níu skot í dag og Sif Hallgrímsdóttir tvö.

Leikskýrslan á vef HSÍ.
Tölfræði og gangur leiksins
á Hbstatz.is.

Eins og áður hefur komið fram hér var þetta gríðarlega mikilvægur leikur á milli liða sem eru að berjast í neðri hluta deildarinnar. Haukar fara í sex stig með sigrinum í dag, en KA/Þór er áfram með fjögur. Selfoss og HK töpuðu einnig sínum leikjum í dag. HK er á botninum með tvö stig en KA/Þór og Selfoss þar fyrir ofan með fjögur stig. Liðin hafa leikið níu leiki.

Næsti leikur KA/Þórs verður heimaleikur verður laugardaginn 10. desember gegn Stjörnunni, sem er í 2. sæti deildarinnar þegar þetta er ritað. Sama dag mætast Selfoss og Haukar.

Staðan í deildinni: