Endurkoma Binna Sveins á Firhill Stadium

Brynjólfur Sveinsson, formaður unglingaráðs Knattspyrnudeildar Þórs og faðir Bjarna Guðjóns landsliðsmanns í U19, er staddur í Glasgow að fylgjast með syninum og U19 landsliðinu sem nú tekur þátt í undanriðli fyrir EM 2023. Svo skemmtilega vill til að Binni var á reynslu hjá Partick Thistle fyrir 30 árum á „sama velli“ og leikur Íslands og Skotlands í gær.

Af leiknum er það að segja að Íslendingar unnu Skotana, 1-0. Bjarni Guðjón kom inn á undir lokin og þótti standa sig vel. Aron Ingi Magnússon, Þórsari og lánsmaður hjá Venezia á Ítalíu, kom ekki við sögu í leiknum.

Binni kominn á kunnuglegar slóðir

En Brynjólfur, eða Binni eins og hann er kallaður, var á kunnuglegum slóðum á vellinum þar sem leikurinn fór fram.

Binni setti pistil á Facebook seint í gærkvöld að leik loknum undir yfirskriftinni Með Irn-Bru í annarri og haggis í hinni og við fengum leyfi til að nýta myndir og segja frá þessum skemmtilega pistli. Þannig vill nefnilega til að Binni fór ásamt félaga sínum, Bjarka Snæ Bragasyni, til reynslu hjá skoska félaginu Partick Thistle í Glasgow, en liðið lék þá í skosku úrvalsdeildinni. Leikur U19 landsliðsins gegn Skotum fór einmitt fram á heimavelli Partick Thistle, en aðstæður þó talsvert breyttar frá því að þeir félagarnir, þá leikmenn annars félags á Akureyri, mættu ungir og galvaskir til reynslu hjá Skotunum. Þeir voru auðvitað spenntir að fara í heimsókn til erlends félagsliðs, en: „Þetta var þó aðeins öðrivísi en við áttum von á, aðstæður ekkert frábærar, æft á möl, í drullu og á parketi og gæðin eftir því,“ ritar Binni í pistlinum.

„Tell him he's Pele and get him back on“

Dvölin hjá Partick Thistle varð eftirminnilega af ýmsum sökum. Gefum Binna orðið aftur þar sem hann lýsir stjóra félagsins, sem virtist hafa takmarkaðan áhuga á þeim félögum:

Stjórinn, sérvitringurinn John Lambie, var við stjórnvölinn og hann hafði takmarkaðan áhuga á þessum lágvöxnu Íslendingum. Það var þá helst að hann væri forvitinn um íslenskar hárgreiðslustofur en honum fannst skrítið að nær allir Íslendingar væru með skipt í miðju og/eða stall. Lambie þessi var áhugamaður um vindla og bréfdúfur og er hann sennilega frægastur fyrir ein tiltekin ummæli. Þegar einn leikmaður hans, Colin McGlashan, fékk höfðuhögg í leik gegn Dundee og rotaðist sagði hann við sjúkraþjálfarann: „That’s great. Tell him he’s Pele and get him back on.“

Binni kveðst hafa gert mistök á fyrstu æfingu og fengið „skoska meðferð“ eftir það. „Þá má segja að ég hafi einnig gert mistök á fyrstu æfingu með því að klobba fyrirliðann, Don McVicar ... og fékk því nokkuð skoska meðferð frá honum eftir það og heimsóknin sat aðeins í manni.“

Á Ibrox með Moyes

Binni kveður ferðina í heild hafa verið skemmtilega enda bauð gestgjafinn þeim á leik á Ibrox-vellinum, en gestgjafinn og sonur hans eru Íslendingum vel kunnugir:

Þótt þessi heimsókn hafi ekki verið frábær þá var ferðin sjálf skemmtileg. Við fengum að gista hjá Íslandsvininum David Moyes í úthverfi Glasgow, þar sem á hverjum morgni var framreiddur enskur morgunverður í betri stofunni fyrir karlana. David þessi bauð okkur m.a. með sér á Ibrox en þangað fórum við ásamt syni hans, David Moyes yngri. Hann var á þeim tíma leikmaður Dunfermline, og ekki að sjá á honum að hann myndi síðar taka við af Sir Alex sem stjóri Manchester United. Skotarnir voru almennt mjög almennilegir og það hefði alveg verið hægt að venjast þessum líffsstíl - bacon, bolti og Irn-Bru eftir æfingu.

30 ára áætlun 

Binni hverfur svo aftur til nútímans þar þau foreldrar Bjarna Guðjóns, Binni og Anna María Ingþórsdóttir, eru stödd á heimavelli Partick Thistle að fylgjast með U19 landsliðinu sigra Skotana. 
 
Nú 30 árum síðar erum við svo mætt á Firhill Stadium, heimavöll Partick Thistle, til að fylgjast með Bjarna Guðjóni og félögum í íslenska U19 landsliðinu mæta Skotum í undankeppni EM. Völlurinn hefur lítið breyst, alvöru old school breskur völlur, pie og bovril í hléi og skoskt veður.
 
Það var mjög skemmtilegt að fylgjast með íslenska liðinu í dag, leikirinn nokkuð opinn og fengu þeir nokkur dauðafæri til að klára Skotana en sigurmarkið kom þegar tuttugu mínútur voru eftir. Bjarni kom inn á í restina í kvöld og þessi sigur gerir það að verkum að næstu tveir leikir verða áhugaverðir. Hin liðin í riðlinum eru Frakkland og Kasakstan og fara tvö lið áfram í næstu umferð.
 
Binni lýkur pistlinum svo með skemmtilegum hætti eins og reynslutíminn í Skotlandi á sínum tíma hafi verið upphafið að 30 ára áætlun til að geta litið til baka og sagt frá þessari ferð: „Ég var svo sem ekkert bitur eftir þessa ferð um árið en 30 ára áætlun til að geta bent til baka segir mögulega eitthvað. Kannski tilviljun en hér í Skotlandi er algengt að stytta Bjarni Brynjólfsson niður í Jrn-Bry.“
 

Allt krökkt af Þórsurum í Glasgow þessa dagana. Hér eru leikmenn U19, Bjarni Guðjón Brynjólsson og Aron Ingi Magnússon, að leik loknum í gær, og með þeim þriðji Þórsarinn, Jakob Franz Pálsson, þar staddur með U21 landsliðinu sem mætir Skotum í kvöld.