Fjögurra marka tap gegn Víkingum

Þórsarar mættu Víkingi á útivelli í Grill 66 deildinni í gærkvöld. Slakur seinni hálfleikur réði úrslitum.

Mikið var skorað í fyrri hálfleiknum og Þórsarar einu marki yfir, 19-18. Þeim tókst hins vegar aðeins að skora átta mörk í seinni hálfleiknum og töpuðu leiknum á endanum með fjögurra marka mun, 31-27. Í frétt um leiki Grill 66 deildarinnar á handboltavefnum handbolti.is er það rifjað upp að í síðasta leik, gegn ungmennaliði Hauka, hafi slakur fyrri hálfleikur komið liðinu í koll, en nú hafi það verið seinni hálfleikurinn og þar hafi meðal annars spilað inn í að „Víkingar voru virkilega brattir í síðari hálfleik eftir að þeim tókst að koma böndum yfir sóknarleik Þórsara.“

Sem fyrr var það Arnór Þorri Þorsteinsson sem skoraði flest mörk Þórsara, 8. Josip Vekic skoraði sex mörk, Kostadin Petrov fimm, Jón Óli Þorsteinsson og Jonn Rói Tórfinnsson þrjú hvor og Aron Hólm Kristjánsson tvö. Arnar Þór Fylkisson varði 14 skot.

Leikskýrslan á vef HSÍ.

Þórsarar sitja núna í sjöunda sæti deildarinnar með fimm stig úr sjö leikjum. Næsti leikur er einnig útileikur, en þá mæta Þórsarar ungmennaliði Fram föstudaginn 25. nóvember kl. 17:30 í Úlfarsárdalnum.