Hallgrímur Skaptason jarðsunginn í dag

Hallgrímur Skaptason jarðsunginn í dag

Kveðja frá Íþróttafélaginu Þór

Í dag, þriðjudaginn 11 október. kveður Íþróttafélagið Þór Hallgrím Skaptason heiðursfélaga, en Hallgrímur lést eftir langvarandi veikindi aðfaranótt þriðjudagsins 27. september 84 ára að aldri.Útför Hallgríms verður gerð frá Akureyrarkirkju og hefst athöfnin klukkan 13:00

Þeir, sem til þekkja vita, að þegar saga Íþróttafélagsins Þórs er skoðuð og verður skráð, er óhjákvæmilegt að nafn Hallgríms Skaptasonar verði þar ritað með feitu letri. Spor hans eru djúp og liggja víða.

Hallgrímur er af þeirri kynslóðar fólks, sem spurði ekki “hvað getur félagið gert fyrir mig” hans mottó var “hvað get ég gert fyrir félagið og hvernig get ég orðið að liði”. Og þar eru svo sannarlega verk hans meitluð í steininn. Og fræg er setning sem sögð var um annan mann, en þó tengdum Hallgrími, Verkin sýna merkin á hér vel við.

Hallgrímur reyndist félaginu sínu drjúgur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann sat um langt árabil í stjórn knattspyrnudeildar og kom þar að margvíslegum verkefnum.

Í áratugi hefur fólk notið góðs af dugnaði Hallgríms og samferðafólki hans í Þór en hann tók virkan þátt í uppbyggingu á félagssvæði Þórs þar sem það hefur verið í u.þ.b. hálfa öld. Hallgrímur sat lengi í bygginganefnd sem hafði yfirumsjón að undirbúningi og byggingu Hamars, félagsheimili.

Hallgrímur sat ekki bara í nefndum og ráðum, hann tók sér í hönd hvers kyns áhöld sem þurfti til, hamar og sög, hjólbörur, skóflu og haka. Einnig var hann ötull að rúlla út þökum á grasvellina á sínum tíma, svo og koma upp girðingu allt í kringum félagssvæðið, þar var Hallgrímur mættur og lagði hönd á plóg.

Það var því vel við hæfi að Hallgrímur var gerður að heiðursfélaga í Þór við vígslu á Hamri laugardaginn 6. júní 1992. Áður hafði hann verið sæmdur gullmerki félagsins. Af þeirri viðurkenningu var Hallgrímur ákaflega stoltur alla tíð.

Í undurfallegum texta Bjarna Hafþórs Helgasonar “Ég er Þórsari" segir á einum stað.

“ Ég gleymi aldrei hver ég er.

Í Hjarta mínu er ég :Þórsari”

Og svo sannarlega voru þetta orð sem Hallgrímur Skaptason tileinkaði sér alla tíð. Og nú þegar tilvist hans er lokið hér á meðal okkar lútum við höfði í þakkarskuld eins og segir einnig í textanum fallega , fyrir allt sem Hallgrímur Skaptason gerði fyrir félagið.

Meðal annarra viðurkenninga sem honum hlotnaðist fyrir sitt óeigingjarna sjálfboðastarf í þágu íþróttahreyfingarinnar var m.a. gull- og silfurmerki KSÍ, gullmerki ÍSÍ og silfurmerki ÍBA.

Hallgrímur var kvæntur Hebu Ásgrímsdóttur ljósmóður sem lést í nóvember 2021 og áttu þau saman þrjú börn, en fyrir átti Hallgrímur eina dóttir.

Um leið og Íþróttafélagið Þór sendir ættingjum og vinum Hallgríms innilegar samúðarkveðjur þakkar félagið honum samfylgdina í gegnum árin og megi minningin um góðan dreng lifa um ókomna tíð og ylja.

Blessuð sé minning Hallgríms Skaptasonar.

Hallgrímur með hjólbörur þegar fyrsti grasvöllur Þórs á félagssvæðinu í Glerárhverfi var þökulagður 1980. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Hallgrímur með fyrsta eintakið af Vertíðarlokum blað knattspyrnudeildar 1980. Hallgrímur ásamt Skapta syni sínum störtuðu útgáfu blaðsins og var hann afar stoltur af því framtaki alla tíð. Myndi: Skapti