Handbolti: Tveggja marka tap gegn ÍR

Þórsarar urðu að játa sig sigraða gegn ÍR-ingum í Grill 66 deild karla í handbolta í dag. Tveimur mörkum munaði þegar upp var staðið. Þór er nú þriðja efsta liðið af þeim fjórum sem mega fara upp um deild.

ÍR-ingar voru feti framar í fyrri hálfleiknum, höfðu eins til þriggja marka forystu lenst af, en náðu að auka forskotið í fimm mörk skömmu fyrir leikhlé, 15-20. Þeir gáfu þetta forskot ekki eftir, bættu heldur við það á tímabili og voru komnir með sjö marka forskot þegar um stundarfjórðungur lifði leiks. Þórsarar náðu að éta forskotið upp að hluta á lokamínútunum, minnkuðu muninn í tvö mörk þegar um ein og hálf mínúta var eftir, en komust ekki nær en það. ÍR-ingar sluppu með sigurinn og fara heim með bæði stigin.

Brynjar Hólm Grétarsson var langmarkahæstur í Þórsliðinu, skoraði 12 mörk í dag. Hjá ÍR var það Baldur Fritz Bjarnason sem var markahæstur með 11 mörk.

Þór - ÍR 34-36 (15-20)

Þór
Mörk: Brynjar Hólm Grétarsson 12, Halldór Kristinn Harðarson 7, Sveinn Aron Sveinsson 4, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Friðrik Svavarsson 3, Þormar Sigurðsson 3, Garðar Már Jónsson 1, Aron Hólm Kristjánsson 1. 
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 6, Tómas Ingi Gunnarsson 4.
Refsimínútur: 8.

ÍR
Mörk: Baldur Fritz Bjarnason 11, Bernard Kristján Darkoh 8, Róbert Snær Örvarsson 5, Sveinn brynjar Agnarsson 3, Jökull Blöndal Björnsson 3, Bjarki Steinn Þórisson 2, Bergþór Róbertsson 2, Egill Skorri Vigfússon 2.
Varin skot: Rökkvi Pacheco Steinunnarson 16 (32%).
Refsimínútur: 6.

Næsti leikur Þórsara er álíka mikilvægur og leikurinn í dag, útileikur gegn Fjölni, sem gæti ráðið úrslitum um röðina í deildinni og oddaleiksrétt þegar kemur að umspilinu um seinna lausa sætið í Olísdeildinni.

Af liðunum sem mega fara upp um deild á Þór þrjá leiki eftir, en hin liðin þrjú eiga fjóra leiki. ÍR-ingar eru efstir þessara fjögurra liða með 20 stig, Fjölnir er með 19, Þór með 18 stig og Hörður með 16. Efsta liðið af þessum fjórum þegar deildinni lýkur fer beint upp í Olísdeildina, en hin þrjú spila um annað laust sæti.

Liðin eiga þessa leiki eftir:

  • Þór: Fjölnir (ú), Fram-u (h), Víkingur-u (h).
  • Fjölnir: Fram-u (ú), Þór (h), Valur-u (ú), KA-u (h)
  • ÍR: Valur-u (h), Hörður (ú), KA-u (ú), Haukar-u (h)
  • Hörður: KA-u (h), ÍR (h), Haukar-u (ú), HK-u (h)

Næst

  • Mót: Grill 66 deildin
  • Leikur: Fjölnir - Þór
  • Staður: Dalhús
  • Dagur: Föstudagur 1. mars
  • Tími: 19:30