Hvítt og svart hjá KA/Þór

KA/Þór fengu Íslandsmeistara Fram í heimsókn norður í dag og má segja að fyrri og seinni hálfleikur hafi verið eins og svart og hvítt. Sextán marka sveifla á milli fyrri og seinni hálfleiks og 11 marka tap niðurstaðan.

KA/Þór náði frumkvæðinu í fyrri hálfleiknum og seig smátt og smátt fram úr gestunum. Munurinn fimm mörk þegar liðin gengu til búningsklefa, 17-12. Það tók Frammara þó ekki nema 6-7 mínútur að éta upp þetta forskot í seinni hálfleiknum, jafnt 19-19 og eftir það sigu gestirnir fram úr, staðan orðin 21-26 og þá komu fimm mörk í röð frá Frömmurum og munurinn orðinn tíu mörk þegar innan við tíu mínútur voru til leiksloka. Lokatölur 24-35 og 11 marka tap staðreynd eftir fimm marka forystu í fyrri hálfleiknum. Sextán marka sveifla á 30 mínútum, ótrúlegt en satt.

Matea Lonac og Rut Jónsdóttir voru atkvæðamestar hjá KA/Þór. Matea varði 17 skot í marki KA/Þórs, og Rut skoraði níu mörk. Nathalia Soares skoraði fimm, Lydia Gunnþórsdóttir fjögur, Hildur Lilja Jónsdóttir tvö og þær Telma Lísa Elmarsdóttir, Kristín A. Jóhannsdóttir, Anna Þyrí Halldórsdóttir og Júlía Björnsdóttir eitt mark hver.

Hjá Fram voru það Steinunn Björnsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir sem skoruðu mest, sjö mörk hvor, Tamara Jovicevic skoraði sex mörk, Kristrún Steinþórsdóttir fimm, Madeleine Lindholm fjögur, Þórey Rósa Stefánsdóttir þrjú og þær Erna Guðlaug Gunnarsdóttir, Valgerður Arnalds og Harpa María Friðgeirsdóttir eitt hver. Hafdís Renötudóttir varði sjö skot í marki fra mog Soffía Steingrímsdóttir þrjú.

KA/Þór situr áfram í fimmta sæti deildarinnar með fjögur stig að loknum sex leikjum. Næsti leikur liðsins í Olís-deildinni verður á útivelli gegn toppliði Vals laugardaginn 19. nóvember kl. 16. Áður en kemur að heimsókninni í Valsheimilið er bikarleikur á dagskrá, en KA/Þór á leik gegn ÍBV í Vestmannaeyjum miðvikudaginn 16. nóvember kl. 17:30. Sá leikur verður í beinni á Rúv.

Gangur leiksins - á hbstatz.is.
Leikskýrslan á vef HSÍ.
Staðan í deildinni, úrslit leikja og leikjadagskrá á vef HSÍ.