Ísfold Marý og Jakobína með U19 upp í A-deild

Byrjunarlið Íslands gegn Færeyjum. Ísfold Marý Sigtryggsdóttir er lengst til vinstri í aftari röð og…
Byrjunarlið Íslands gegn Færeyjum. Ísfold Marý Sigtryggsdóttir er lengst til vinstri í aftari röð og Jakobína þriðja frá vinstri í aftari röð. Myndin er af vef KSÍ.

U19 landslið kvenna, með þær Ísfold Marý Sigtryggsdóttur og Jakobínu Hjörvarsdóttur innanborðs, vann alla leiki sína í undanriðli EM 2023 og er komið upp í A-deild.

Jakobína var í byrjunarliðinu í morgun þegar Ísland mætti Litháen, en Ísfold Marý varamaður. Þær höfðu báðar byrjað fyrri tvo leiki liðsins, spiluðu allan leikinn gegn Liechtenstein og rúmar 70 mínútur gegn Færeyjum. Ísland vann nokkuð auðvelda sigra á öllum andstæðingunum í riðlinum, 8-0, 4-0 og 3-0. Jakobína lagði upp eitt marka Íslands í morgun, sem reyndar var sjálfsmark, og Ísfold hafði áður átt eina stoðsendingu sem gaf mark.

Með sigri í riðlinum tryggði íslenska liðið sér sæti í A-deild þar sem 28 lið munu bítast um sjö laus sæti á lokamóti EM. A-deildinni verður skipt í sjö riðla og mun sigurlið hvers riðils fara í lokamótið. Reikna má með að keppni í þessum riðlum fari fram í lok mars eða byrjun apríl, en sjálft lokamótið er í júlí 2023.

Leikskýrslan gegn Litháen.
Leikskýrslan gegn Færeyjum.
Leikskýrslan gegn Liechtenstein.

Mótið á vef KSÍ.

Allar upplýsingar um EM U19 á vef UEFA.