Jafnt hjá KA/Þór og Stjörnunni

KA/Þór og Stjarnan skiptu með sér stigunum þegar þau mættust í Olísdeild kvenna í handbolta í dag, en fyrir leikinn voru þessi lið þau einu stigalausu í deildinni.

Leikurinn var jafn framan af, en Stjarnan seig fram úr í lok fyrri hálfleiks og munurinn fimm mörk í leikhléi, staðan 10-15. Stjarnan komst sex mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiksins, en KA/Þór saxaði muninn smátt og smátt niður og náði frumkvæðinu og fjögurra marka forystu þegar um stundarfjórðungur var eftir. Þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum var KA/Þór með þriggja marka forystu, 24-21, en skoraði ekki mark eftir það. Stjarnan vann upp forskotið og jafnaði í 24-24 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir, en allar tilraunir liðanna eftir það fóru forgörðum og jafntefli niðurstaðan.

Úrslitin þýða að bæði lið eru nú með eitt stig eftir fjórar umferðir, en KA/Þór með mun verri markamun. Afturelding er einu stigi á undan KA/Þór og Stjörnunni.

Tölurnar

KA/Þór
Mörk: Rakel Sara Elvarsdóttir 6, Nathalia Soares Baliana 5, Telma Lísa Elmarsdóttir 4, Lydía Gunnþórsdóttir 4, Kristín A. Jóhannsdóttir 4, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 15 (38,5%).
Refsingar: 6 mínútur

Stjarnan
Mörk: Eva Björk Davíðsdóttir 8, Embla Steindórsdóttir 5, Vigdís Anna Hjartardóttir 3, Anna Karen Hansdóttir 2, Stefanía Theodórsdóttir 2, Hanna Guðrún Hauksdóttir 1, Elísabet Gunnarsdóttir 1, Kristín Guðmundsdóttir 1, Ivana Jorna Meincke 1.
Varin skot: Elísabet Millý Elíasardóttir: 9 (27,3%), Sigrún Ásta Möller 2 (100%).
Refsingar: 4 mínútur.

KA/Þór mætir Haukum í næsta leik í Hafnarfirði fimmtudaginn 5. Október kl. 18.

Rakel Sara og Aldís Ásta eiga möguleika á HM-sæti

Fyrr í dag var tilkynnt um 35 leikmenn sem eiga möguleika á að komast í lokahóp íslenska landsliðsins fyrir HM sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð 30. nóvember til 17. desember. Í þeim hópi eru Rakel Sara Elvarsdóttir úr KA/Þór og Aldís Ásta Heimisdóttir, fyrrum leikmaður KA/Þórs sem nú leikur með Skara HF í Svíþjóð. Ísland leikur í riðli með Frakklandi, Slóveníu og Angóla.