KA/Þór hefur leik í Olísdeildinni á laugardag

Nýr þjálfari KA/Þórs: Arna Valgerður Erlingsdóttir.
Nýr þjálfari KA/Þórs: Arna Valgerður Erlingsdóttir.

Haustið nálgast og handboltinn rúllar af stað. Keppnistímabilið er að hefjast hjá stelpunum í KA/Þór, en þær fá lið ÍBV í heimsókn í KA-heimilið laugardaginn 9. september.

Nýtt þjálfarateymi er tekið við KA/Þór. Arna Valgerður Erlingsdóttir var fyrir nokkru ráðin sem aðalþjálfari liðsins og Þorvaldur Þorvaldsson aðstoðarþjálfari hennar. Þorvaldur var aðstoðarþjálfari Jónatans Magnússonar hjá KA/Þór 2016-2019, en liðið tryggði sér á þeim tíma sæti í efstu deild.

Arna Valgerður öllum hnútum kunnug

Arna Valgerður hefur bæði sem leikmaður og þjálfari átt stóran þátt í uppgangi KA/Þórs á undanförnum árum. Hún hefur starfað við þjálfun yngri flokka KA/Þórs og leikið með liðinu. Hún á að baki 138 leiki með KA/Þór.

Þegar tilkynnt var um ráðningu Örnu Valgerðar í starf þjálfara var á heimasíðu KA vitnað í Stefán Guðnason, formann stjórnar KA/Þórs, þar sem hann sagði: Við erum einstaklega ánægð með að fá Örnu til starfa hjá okkur. Þegar Andri Snær sagði upp störfum var Arna strax mjög ofarlega á blaði hjá okkur. Hún hefur starfað lengi hjá félaginu, veit hvað við stöndum fyrir og er gríðarlega hæfileikaríkur þjálfari, það þekki ég af eigin raun eftir að hafa starfað með henni lengi. Við erum í ákveðnum uppbyggingarfasa og við teljum Örnu vera frábæran kost til að leiða okkar unga og efnilega lið upp á næsta þrep.

Kristín Jóhannsdóttir framlengir

Þá hefur Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir, sem leikur í vinstra horninu, skrifað undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór, en hún hefur verið liðinu mikilvæg í uppgöngu þess á undanförnum árum. Hún mun leika sinn 100. Leik fyrir KA/Þór (deild, bikar, Evrópa) þegar liðið mætir ÍBV á laugardaginn.

Nánar verður fjallað um leikmannahópinn hjá KA/Þór á næstunni hér á heimasíðunni, mögulega þó ekki fyrr en eftir fyrsta leik.


Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir. Mynd: ka.is

Eins og áður sagði hefja stelpurnar í KA/Þór keppni í Olísdeildinni næstkomandi laugardag þegar þær taka á móti ÍBV. Leikurinn hefst kl. 13.

Fjórir leikir í september

Fjórir leikir eru á dagskránni hjá KA/Þór í septembermánuði. Stelpurnar byrja á heimaleik, síðan koma tveir útileikir og svo aftur heimaleikur.

Laugardagur 9. september kl.13:00
KA/Þór - ÍBV

Föstudagur 15. september kl. 19:15
Valur - KA/Þór

Laugardagur 23. september kl. 15:00
ÍR - KA/Þór

Föstudagur 29. september kl. 18:15
KA/Þór - Stjarnan