Knattspyrna: Þór mætir Breiðabliki í undanúrslitum í dag

Þórsarar taka á móti Blikum í undanúrslitum A-deildar Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn fer fram í Boganum og hefst kl. 16:30. Þessi lið mættust á sama stað í undanúrslitum Lengjubikarsins fyrir tæpum tíu árum. 

Segja má að leikur dagsins sé stærsta próf Þórsliðsins hingað til á yfirstandandi tímabili þó svo þrjú lið úr Bestu deildinni hafi þegar þurft að játa sig sigruð gegn þeim hingað til. Breiðablik endaði reyndar í 4. sæti Bestu deildar karla í fyrrahaust, sæti neðar en Stjarnan, en liðsskipan Stjörnunnar í leiknum í Boganum á dögunum, sem og KR-inga, gefur ef til vill ekki rétta mynd af leikmannahópum þessara liða. Það verður reyndar forvitnilegt að sjá hvaða leikmönnum Kópavogsliðið teflir fram í dag.

Segja má að Þórsarar fái í dag annað tækifæri gegn Blikum því þessi lið mættust í undanúrslitum A-deildar Lengjubikars karla 21. apríl 2014. Sá leikur fór einnig fram í Boganum og höfðu Blikar betur, 2-1. Guðjón Pétur Lýðsson og Árni Vilhjálmsson komu Blikum í 2-0 í fyrri hálfleik, en Þórður Birgisson minnkaði muninn fyrir Þór í þeim síðari. Áður höfðu Þórsarar farið í undanúrslit 2006, en töpuðu þá 2-0 fyrir FH í Fífunni 23. apríl.  

Hvað gerðu liðin í riðlakeppninni?

A-deild karla skiptist í fjóra riðla og fara sigurlið riðlanna í undanúrslit. Augljóslega unnu því bæði Þór og Breiðablik sína riðla. Þórsarar fóru taplausir í gegnum riðilinn, gerðu jafntefli við Fjölni í lokaleiknum eftir að ljóst var að þeir höfðu tryggt sér sigur í riðlinum. Þrjú lið úr Bestu deildinni lágu í valnum, tvö þeirra í Boganum og eitt í Kórnum. Þórsarar unnu semsagt fjóra leiki, gegn Njarðvík, Stjörnunni, HK og KR og gerðu jafntefli við Fjölni, markatalan 17-3. 

Aron Ingi Magnússon (4), Rafael Victor (3) og Fannar Daði Malmquist Gíslason (3) voru iðnastir Þórsara við að skora í riðlinum, samtals með tíu mörk af 17. Alls voru það níu leikmenn sem skoruðu mörk Þórs í riðlinum. 

Breiðablik vann þrjá leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði einum í riðli 1, enduðu með tíu stig og markatöluna 15-4. Blikar töpuðu fyrir FH í fyrsta leiknum. Þeir unnu Grindavík, Gróttu og Keflavík, en gerðu jafntefli við Vestra. Dagur Örn Fjeldsted (3) skoraði flest mörk fyrir Breiðablik í riðlinum, en alls voru það níu leikmenn sem skoruðu þessi 15 mörk.