Körfubolti: Fimmtán ára Emma stal senunni

Emma Karólína Snæbjarnardóttir stal senunni í sigri Þórs á Snæfelli. Mynd: Páll Jóhannesson.
Emma Karólína Snæbjarnardóttir stal senunni í sigri Þórs á Snæfelli. Mynd: Páll Jóhannesson.

Þór vann Snæfell, nokkuð örugglega að segja má þegar upp var staðið, en þó í sveiflukenndum leik, í Subway-deild kvenna í körfubolta í gærkvöld. Munurinn var 12 stig í lokin. 

Gestirnir af Snæfellsnesinu byrjuðu betur og höfðu tíu stiga forskot þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Danni þjálfari tók þá leikhlé sem skilaði níu stigum í röð og munurinn því eitt stig eftir fyrsta leikhluta. Sveiflurnar héldu hins vegar áfram, Snæfell náði aftur tíu stiga forskoti, aftur kom áhlaup frá okkar konum sem skilaði forystu í nokkrar sekúndur áður en gestirnir svöruðu. Snæfell með fjögurra stiga forskot í leikhléi.

Snæfellska sveiflan hélt svo áfram í byrjun þriðja leikhluta, en þá fannst Þórsurum nóg komið og sigu fram úr, unnu að lokum nokkuð öruggann 12 stiga sigur. Eflaust hafði breiddinn einnig sitt að segja. Snæfell með þrjá leikmenn sem spila allar eða næstum allar mínútur á meðan Þór getur hvílt sínar öflugustu konur aðeins meira öðru hverju. Það segir kannski sína sögu að Snæfell hafði fjögurra stiga forystu eftir fyrri hálfleikinn, en Þór vann þann seinni með 16 stiga mun.


Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, tók leikhlé í stöðunni 10-20 í fyrsta leikhluta. Næstu níu stig voru Þórsara. Smellið á myndina til að opna myndaalbúm frá leiknum. Mynd: Páll Jóhannesson.

Það er heldur ekki amalegt að eiga varamenn sem geta breytt leiknum. Emma Karólína Snæbjarnardóttir, sem er á sextánda árinu, kom til dæmis inn af bekknum í gærkvöld og stal senunni í leiknum, var stigahæst Þórsara með 19 stig. Nýtingin var líka framúrskarandi, en hún hitti úr fjórum af fimm tveggja stiga skotum, þremur af fjórum þriggja stiga og tveimur af þremur vítaskotum. 

Þór - Snæfell (19-20) (18-21) 37-41 (23-13) (24-18) 84-72

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Emma Karólína Snæbjarnardóttir 19/7/3, Maddie Sutton 16/10/5, Lore Devos 16/6/5, Eva Wium Elíasdóttir 11/2/5, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 10/5/1, Heiða Hlín Björnsdóttir 5/3/0, Karen Lind Helgadóttir 5/0/0, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 2/0/0. 

Snæfell: Shawnta Grenetta Shaw 30/10/7, Mammusu Secka 16/7/3, Jasmina Jones 9/4/2, Eva Rupnik 7/8/0, Dagný Inga Magnúsdóttir 7/0/1, Adda Ásmundsdóttir 3/1/0.

Hér má sjá helstu tölfræðiþætti á myndrænan hátt. Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins.

Á sama tíma og Þór vann Snæfell heimsóttu Fjölniskonur Val að Hlíðarenda og sigruðu. Þór og Valur eru því aftur með jafn marga sigra, hafa unnið níu leiki. Valur heldur þó enn 6. sætinu þar sem liðið hefur unnið tvær viðureignir gegn einni þegar þessi lið hafa mæst í vetur. Í næstu umferð mætast Valur og Snæfell í Stykkishólmi og Þór og Fjölnir í Grafarvoginum. Þór fær svo Val í heimsókn í Íþróttahöllina í lokaumferð B-hluta deildarkeppninnar í byrjun apríl.

En næst eru það undanúrslit í VÍS-bikarnum, sem fjallað verður um hér á heimasíðunni á næstu dögum.

Næst

  • Mót: VÍS-bikarkeppnin, undanúrslit
  • Leikur: Þór - Grindavík
  • Staður: Laugardalshöllin
  • Dagur: Miðvikudagur 20. mars
  • Tími: 20:00
  • Miðasala: Stubbur app
  • Útsending: RÚV 2

Þarnæst

  • Mót: Subway-deildin, B-hluti
  • Leikur: Fjölnir - Þór
  • Staður: Dalhús
  • Dagur: Þriðjudagur 26. mars
  • Tími: 19:15
  • Útsending: Stöð 2 sport, Subwaydeildarrás