Körfubolti: Sex stiga tap og Þór í 7. sætið

Maddie Sutton í leik Þórs og Vals á Akureyri í desember. Hún var öflug í fráköstunum í leiknum í kvö…
Maddie Sutton í leik Þórs og Vals á Akureyri í desember. Hún var öflug í fráköstunum í leiknum í kvöld, eins og jafnan í leikjum liðsins. Mynd: Páll Jóhannesson.

Valur tók 6. sæti Subway-deildarinnar af Þór með sex stiga sigri í leik liðanna á Hlíðarenda í kvöld, í bili að minnsta kosti. Liðin eiga enn eftir að leika þrjá leiki og mætast innbyrðis í lokaumferðinni á Akureyri í byrjun apríl.

Fyrri hálfleikurinn var jafn og skiptust liðin á forystunni. Valur vann fyrsta leikhlutann með einu stigi, en Þór annan leikhluta með einu stigi og því jafnt eftir fyrri hálfleikinn, 38-38. Valskonur náðu 12 stiga forystu í þriðja leikhluta, en Þórsarar minnkuðu muninn niður í tvö stig í þeim fjórða, 66-64. Aftur tóku Valskonur kipp og náðu tíu stiga forystu, en munurinn sex stig þegar lokaflautið gall.

Valur - Þór (23-22) (15-16) 38-38 (25-18) (27:28) 90-84

Lore Devos var stigahæst í Þórsliðinu með 27 stig og Maddie Sutton öflug í fráköstunum að vanda, tók 19 fráköst, ásamt því að skora 17 stig, gefa átta stoðsendingar og stela boltanum þrisvar. Eva Wium Elíasdóttir skoraði 12 stig, Hrefna Ottósdóttir 11 og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir tíu.

Stig/fráköst/stoðsendingar

 

Valur: Téa Adams 21/6/4, Brooklyn Pannell 20/9/3, Eydís Eva Þórisdóttir 18/1/0, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 11/1/1, Ásta Júlía Grímsdóttir 8/11/1, Guðbjörg Sverrisdóttir 5/3/1, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir 4/2/1, Elísabert Thelma Róbertsdóttir 3/0/0, Sara Líf Boama 0/0/1.

Þór: Lore Devos 27/8/4, Maddie Sutton 17/19/8, Eva Wium Elíasdóttir 12/4/1, Hrefna Ottósdóttir 11/3/2, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 10/5/1, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 4/3/0, Karen Lind Helgadóttir 3/0/0, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 0/0/1.

Sigur Vals þýðir að Íslandsmeistararnir hafa sætaskipti við Þór, færa sig upp í 6. sætið, en Þórsarar í 7. sætið í staðinn. Bæði lið eiga eftir þrjá leiki og mætast í lokaumferð deildarinnar 3. apríl. Hvernig sem fer er ljóst að þessi tvö lið enda í 1. og 2. sæti B-hlutans, 6. og 7. sæti deildarinnar, og mæta liðunum sem enda í 2. og 3. sæti A-hlutans, en þar sitja nú Njarðvík og Grindavík. Það gæti því farið svo að Þór mæti Grindavík bæði í átta liða úrslitum Íslandsmótsins og í undanúrslitum bikarkeppninnar.

Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Snæfelli, en því miður ekki fyrr en eftir tvær vikur.

Næst

  • Mót: Subway-deild kvenna, B-hluti
  • Leikur: Þór - Snæfell 
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: Þriðjudagur 12. mars
  • Tími: 19:30