Kvennaliðin á útivöllum í dag: Tindastóll-Þór í körfu - ÍBV-KA/Þór í handbolta FRESTAÐ

Þór mætir Tindastóli á Sauðárkróki í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld kl. 20:10. KA/Þór mætir ÍBV í Eyjum í bikarkeppni kvenna í handbolta kl. 17:30.

Leikur KA/Þórs og ÍBV, sem fram fer í Eyjum, er í „16“ liða úrslitum, en þó eru aðeins 12 lið sem spila í þessari umferð. Tvö lið sitja yfir og bætast við sigurliðin sex úr þessari umferð þegar kemur að átta liða úrslitum í febrúar. ÍBV er í 4. sæti Olís-deildarinnar með átta stig, en KA/Þór í 5. sætinu með fjögur stig, en bæði liðin hafa leikið sex leiki. Þess verður svo ekki langt að bíða að liðin mætist aftur, því KA/Þór á heimaleik gegn ÍBV í Olís-deildinni laugardaginn 26. nóvember.

Uppfært: Leik ÍBV  og KA/Þórs í bikarkeppninni í handbolta var frestað þar sem okkar konur komust ekki til Eyja. Samkvæmt frétt á handbolti.is hefur mótanefnd HSÍ ákveðið að leikurinn fari fram þriðjudaginn 22. nóvember kl. 17:30

Nágrannaslagur í körfunni

Komið er að 10. umferðinni í 1. deild kvenna í körfubolta og fara okkar stelpur á Krókinn í kvöld og mæta liði Tindastóls. Þór er í þriðja sæti eftir níu leiki, hefur unnið sex og tapað þremur. Tindastóll er í 8. sæti deildarinnar með tvo sigra og sjö töp. Liðin mættust fyrr í haust í Íþróttahöllinni á Akuretyri og höfðu okkar stelpur þá sigur, 74-52. 

Leikur Tindastóls og Þórs hefst kl. 20:10 í kvöld. Við hvetjum okkar fólk til að renna á Krókinn og styðja stelpurnar okkar, en fyrir þau sem ekki hafa tök á því er einnig hægt að fylgjast með beinu streymi frá leiknum á Tindastóll TV - smellið hér til að horfa. Aðgangur að útsendingunni kostar 19 evrur.