Látum íþróttirnar vera númer eitt

Nói Björnsson, formaður Þórs.
Mynd - Skapti Hallgrímsson
Nói Björnsson, formaður Þórs.
Mynd - Skapti Hallgrímsson

Ræða Nóa Björnssonar á verðlaunahófinu við Áramót í Hamri 6.janúar 2026

 
Við erum hér saman komin til að fagna árangri Íþróttafólksins okkar á nýliðnu ári. Það hafa verið unnin mörg afrek af okkar félagsmönnum á árinu 2025 og ber því að fagna.

Við eigum mikið af góðu íþróttafólki í okkar röðum, marga Íslandsmeistara, landsliðsfólk og munum við heiðra íþróttafólkið okkar með viðeigandi hætti. Að mínum hætti væri kannski réttara að segja.

Við munum krýna íþróttafólk deildanna og í lok hátíðarinnar krýnum við síðan íþróttamenn félagsins af báðum kynjum þ.e. konu og karl.

Það er gaman að nefna það hér að fyrrverandi leikmaður, góður félagsmaður og ekki síst fyrrverandi Íþróttamaður Þórs, Tryggvi Snær Hlinason varð þriðji í kjöri til íþróttamanns Íslands fyrir 2025. Það sýnir okkur hversu gott uppeldisstarfið er hjá okkur.

Staðan í aðstöðumálum á Þórssvæðinu

Áður en lengra er haldið langar mig að leiðrétta skrif mín á Thorsport.is sem birtust þar í desember, þar fór ég yfir og óskaði eftir samstöðu allra félagsmanna vegna þeirra verkefna sem við erum að vinna í á svæðinu um þessar mundir ásamt Akureyrarbæ og gat þess að væntanlega fengjum við góðar fréttir fyrir árslok varðandi innanhúss greinarnar okkar.

Því miður fór ég víst örlítið fram úr mér varðandi innanhús greinarnar og þessar væntingar mínar sem áttu reyndar við rök að styðjast þegar skrif mín fóru í loftið, en framgangur málsins mun tefjast um nokkrar vikur.

Fyrir vorið 2026 verður Íþróttafélagið Þór með undirritaðan samning við Akureyrarbæ um byggingu íþróttahúss á svæðinu okkar. Hvenær verður hafist handa með skóflum og vélum get ég ekki fullyrt á þessari stundu en við erum með miklar væntingar til bæjarins um að verkefnið verði klárað á næstu 5 árum eða svo.

Bæjarstjórnin hefur verið okkur íþróttafólkinu mjög hliðholl á þessu kjörtímabili og er full ástæða til að þakka fyrir þeirra vinnu með okkur en við höfum alveg sömu væntingar til næsta meirahluta sem settur verður saman á vordögum í framhaldi af kosningum í maí.

Það kostar miklar upphæðir að byggja íþróttamannvirki eins og við erum að kalla eftir og að sjálfsögðu er tekist á, á fundum með bænum; annað væri óeðlilegt í svona stóru verkefni. Við þökkum bæjaryfirvöldum og starfsmönnum mikið fyrir velviljann.

„Látum íþróttirnar vera númer eitt“

Mig langar að koma inn á þann helsta vágest sem við sem samfélag fáum margar og miklar fréttir af og ömurlegar. Þar er ég að tala um fíkniefni og er áfengi/bjór ekkert þar undan skilinn. Umræðan hefur verið mikil um ungt og efnilegt fólk sem hefur leiðst útaf brautinni og jafnvel endað líf sitt á ömurlegan hátt. Í þessum málum er ekki spurt um uppeldi, heimilisfang, foreldra eða kennitölur. Það eru allir undir.

Auðvitað má líka bæta við þeim vágesti sem margir íþróttamenn eru að troða í vörina á sér. Þar erum við að tala um hreinan og kláran viðbjóð að mínu mati og ekki má heldur gleyma sóðaskapnum af þessu, þar sem menn og konur kasta og/eða spýta notuðum pokum frá sér nánast hvar sem er.

Mig langar hreinlega að skora á ykkur þetta unga, efnilega og fallega íþróttafólk að láta það hreinlega vera að prófa þessa hluti.

Annar vágestur sem er gríðarlega mikið vandamál í kringum íþróttirnar. Það eru veðmálin; þarna er enn einn óþverrinn að elta okkur öll með allskonar gylliboðum sem standast enga skoðun. Íþróttamenn og að sjálfsögðu engir aðrir ættu að koma nálægt þessum hlutum. Það er þekkt staðreynd að margir hafa tapað stórum peningaupphæðum sem í raun litlu skiptir, þegar við bætast fréttir um að fólk sé að taka líf sitt vegna veðmála.

Þið hugsið kannski núna hvað er þessi gamli feiti karl 65 ára að predika. Þetta er ekki predikun, þetta er áskorun frá formanni Þórs, látum íþróttirnar vera númer eitt.

Það vill svo til að ég tók þá ákvörðun sem íþróttamaður 16 ára að ég skildi aldrei prófa neitt af þessu og ég hef staðið við það þrátt fyrir að hafa unnið í c.a. 30 ár í kringum framleiðslu af þessu tagi þ.e.a.s. bjórframleiðslu. Ég er gríðarlega stoltur af þessari ákvörðun og þess vegna leyfi ég mér að segja þessa hluti hérna fyrir framan þennan hóp.

Það er bara allt í lagi að vera öðruvísi og taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Það verður oft til svokallaður hópþrýstingur í íþróttahópum og það er vont mál ef einstaklingar fá ekki að taka svona ákvarðanir vegna hópþrýstings.

Ég ítreka það, það er TÖFF að vera öðruvísi !

Vertu öðruvísi ef þess þarf !

Takk fyrir

Nói Björnsson, formaður Þórs

Nói lék knattspyrnu með mfl. Þórs frá 1977 – 1991 og var fyrirliði liðsins frá 1982-1991

Þjálfari mfl. Þórs 1994-1995

Stjórnarmaður í Þór/KA 2005 - 2021