Takk Orri!

Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net
Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net

Orri Sigurjónsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Þór, í bili hið minnsta en Orri nýtti ákvæði í samningi sínum í lok síðasta tímabils og er að flytjast alfarið búferlum í Kópavog.

Orri hefur leikið 227 leiki fyrir Þór í öllum keppnum síðan hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið sumarið 2012 en hans fyrsti deildarleikur fyrir Þór var í 2-0 sigri á Leikni á Þórsvellinum þann 12.maí 2012. Orri kom þá inná sem varamaður fyrir Atla Jens Albertsson og hefur frá þeim degi leikið sífellt stærra hlutverk í Þórsliðinu. Orri var fyrirliði Þórs á síðasta tímabili og var valinn besti leikmaður tímabilsins í lok þess.

Auk þess að vera í lykilhlutverki í Þórsliðinu undanfarin ár hefur Orri alla tíð verið öflugur félagsmaður, boðinn og búinn til að leggja hinum ýmsu verkefnum lið. Hann hefur verið liðsfélögum sínum og öðrum iðkendum félagsins góð fyrirmynd hvað þetta varðar og er skólabókardæmi um þau gildi sem lögð er áhersla á í yngri flokka starfi félagsins, starfi sem Orri fór sjálfur í gegnum upp alla yngri flokka.

Um leið og við þökkum Orra fyrir ómetanlegt framlag til félagsins óskum við honum góðs gengis í komandi verkefnum og erum þess fullviss um að hann hafi ekki sagt sitt síðasta þegar kemur að framlagi til félagsins.

Takk Orri!

Með því að smella hér má sjá Instagram færslu frá Orra sjálfum þar sem hann þakkar Þórsurum fyrir samfylgdina, í bili, ásamt myndasyrpu.