Tap gegn Hrunamönnum

Tap gegn Hrunamönnum

Þórsarar urðu að játa sig sigraða þegar þeir sóttu lið Hrunamanna heim í kvöld í leik sem fram fór á Flúðum. Heimamenn höfðu sjö stiga sigur 101:94.

Okkar menn voru lengi í gang í kvöld en heimamenn mættu heitir til leiks og unnu fyrsta leikhlutann með tólf stigum 27:15. Leikurinn jafnaðist í örðum leikhluta þar sem Þórsarar komu ákveðnari til leiks og unnu leikhlutann með þrem stigum 20:23 en heimamenn leiddu í hálfleik með níu stigum 47:38.

Strákarnir okkar komu grimmir inn í síðari hálfleikinn og hófu strax að saxa á forskot heimamanna og þegar fjórði og síðari leikhlutinn hófst var aðeins eins stigs munur á liðunum 71:70. Þór vann leikhlutann 24:32.

Þórsarar komust svo yfir strax í fjórða leikhluta 71:72 og leiddu fyrstu tvær og hálfa mínútuna en þá jafna heimmenn 76:76. Þór náði svo aftur forystu í leiknum 79:81 og 81:83. Hrunamenn komust yfir á nýjan leik þegar fjórar mínútur lifðu leiks 86:83 og segja má að það sem eftir lifði leiks var allt í járnum. Heimamenn voru þó ögn beittari og náðu að landa sjö stiga sigri 101:94.

Í liði Þórs var Arturo sjóðandi heitur og skoraði 38 stig og Smári var einnig öflugur með 20 stig. Þá átti Baldur Örn flottan leik en hann skoraði 10 stig og tók 17 fráköst.

Í liði heimamanna voru þeir Samuel Burt og Ahmad en saman skoruðu þeir rúmlega helming stiga liðs síns eða 54 samtals.

Gangur leiks eftir leikhlutum: 27:15 / 20:23 (47:38) 24:32 / 30:24 =101:96

Framlag leikmanna Þórs: Arturo Rodriguez 38/5/4, Smári Jónsson 20/1/3, Hlynur Freyr 13/2/3, Baldur Örn 10/17/4, Toni Cutuk 8/8/2, Páll Nóel 5/3/6. Að auki spiluðu þeir Zak Harris og Andri Már en þeim tókst ekki að skora.

Framlag Hrunamanna: Samuel Burt 28/7/2, Ahmad Gilbert 26/11/4, Óðinn Freyr 9/2/1, Haukur Hreinsson 9/3/3, Friðrik Heiðar 9/4/0, Yngvi Freyr 7/7/4, Hringur Karlsson 6/4/1, Eyþór Orri 4/8/10 og Þorkell Jónsson 3/2/1.

Nánari tölfræði:

Næsti leikur Þórs verður heimaleikur gegn Álftanesi og fer sá leikur fram föstudaginn 25. nóvember klukkan 19:15.

Áfram Þór alltaf, alls staðar