Þórsarar ekki í umspilið, fallbarátta í lokaumferðunum

Staðan í neðri hluta Lengjudeildarinnar breyttist ekki með úrslitum leikja í dag. Eftir að Þróttur og Selfoss höfðu unnið sína leiki í gær og fyrradag töpuðu Þórsarar og Njarðvíkingar í dag og Þór er því enn í 7. sætinu. Úrslit dagsins þýða hins vegar að Þórsarar eiga ekki lengur möguleika á að ná 5. sætinu eða ofar og er því endanlega ljóst að þeir fara ekki í umspil um sæti í Bestu deildinni.

Skagamenn byrjuðu leikinn í dag af krafti og skoruðu tvö mörk á rúmum stundarfjórðungi. Reyndar fundu einhverjir rangstöðulykt af fyrsta marki Skagamanna, en erfitt að fullyrða um það af upptöku frá leiknum. Þórsarar náðu að minnka muninn um miðjan fyrri hálfleikinn, staðan 1-2 í leikhléi. Þegar tæpur stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleiknum vildu Þórsarar fá víti á markvörð Skagamanna, en fengu ekki. Skagamenn bættu við þriðja marki sínu þegar stutt var eftir, en Þórsarar minnkuðu aftur muninn í eitt mark með marki úr lokasókn leiksins.

  • 0-1 - Viktor Jónsson (9’). Stoðsending: Johannes Vall.
  • 0-2 - Arnór Smárason (16’). Stoðsending: Steinar Þorsteinsson.
  • 1-2 - Bjarni Guðjón Brynjólfsson (24’). Stoðsending: Mark Sörensen.
  • 1-3 - Breki Þór Hermannsson (86’). Stoðsending: Viktor Jónsson.
  • 2-3 - Nikola Kristinn Stojanovic (90+9').

Staðan í deildinni er áhugaverð því Skagamenn standa best að vígi á toppnum, með þriggja stiga forystu á Aftureldingu, sem er eina liðið með möguleika á að fara upp fyrir þá. Fjölnir, Vestri og Leiknir hafa öll tryggt sér sæti í umspilinu, en eiga ekki möguleika á efsta sætinu. Hin liðin í deildinni eru öll í fallhættu, en Ægismenn úr Þorlákshöfn reyndar fallnir fyrir nokkru. Tveimur stigum munar á Grindavík, sem er í 6. sætinu og Selfossi sem er í fallsætinu. Þórsarar sitja þar á milli. Selfyssingar eru í fallsætinu á markatölu því Njarðvík, Grótta og Þróttur eru með 23 stig eins og Selfoss, en Þórsarar þar fyrir ofan með 24 stig og slökustu markatöluna af þeim liðum sem nú berjast um að forðast fall úr deildinni.

Þór á eftir tvo leiki, fyrst útileik á móti Gróttu laugardaginn 9. september og svo heimaleik gegn Grindavík í lokaumferðinni laugardaginn 16. september.

Upptaka af leiknum er á YouTube-rás Lengjudeildarinnar. Hér að neðan er hægt að fara beint inn á mörkin í leiknum, ásamt atvikinu þegar Þórsarar vildu fá dæmda vítaspyrnu.

0-1 - Viktor Jónsson (9').

0-2 - Arnór Smárason (16')

1-2 - Bjrni Guðjón Brynjólfsson (24'). 

57. mínút - víti eð ekki?

1-3 - Breki Þór Hermnnsson (86'). 

2-3 - Nikola Kristinn Stojanovic (90+9’)