Tryggvi Snær körfuknattleiksmaður ársins á Íslandi

Þórsarinn Tryggvi Snær Hlinason er körfuknattleiksmaður ársins 2025, annað árið í röð. Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) greinir frá.

Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og þjálfurum karla-og kvennalandsliðanna. Nánar má lesa um valið á vef KKÍ.

Umsögn KKÍ

Tryggvi Snær átti stórkostlegt ár með félagsliði sínu Bilbao Basket og íslenska landsliðinu. Bilbao sigraði FIBA Europe Cup með glæsilegum sigri á PAOK frá Grikklandi í úrslitaeinvígi. Tryggvi átti sinn besta leik í undanúrslitum keppninnar, þegar hann var framlagshæstur sinna manna í sigri á Tofas frá Tyrklandi. Tryggvi var frábær fyrir íslenska landsliðið á Eurobasket í Póllandi. Hann leiddi íslenska liðið í stigaskorun og fráköstum, og var sjötti framlagshæsti leikmaður mótsins, ásamt því að enda í öðru sæti í 2 stiga skotnýtingu – á milli þeirra Giannis Antetokounpo og Nikola Jokic.

Við þetta má bæta að Tryggvi tók við hlutverki fyrirliða hjá Bilbao á árinu sem er að líða og hefur svo sannarlega fest sig í sessi í Baskalandi en Tryggvi hefur einnig leikið með Valencia, Zaragoza og Obradoiro á Spáni eftir að hann yfirgaf Þorpið sumarið 2017.

Tryggvi var útnefndur Íþróttamaður Þórs þrjú ár í röð (2015, 2016, 2017) áður en hann hélt til Spánar.

Við óskum okkar manni til hamingju með valið!