Ungur Þórsari með glæsilegan sigur í pílukasti

Ungur Þórsari, Sigurður Brynjar Þórisson, var í sviðsljósinu í beinni útsendingu á Stöð 2 sport í kvöld þegar hann spilaði til úrslita í úrvalsdeild yngri spilara.

Eftir undanúrslitin í úrvalsdeildinni hjá þeim fullorðnu var komið að úrslitaleik yngri spilara, en Íslenska pílukastsambandið hélt í fyrsta skipti á þessu ári mót fyrir börn og unglinga, unglingamótaröð ÍPS og Ping pong. Úrvalsdeildin var í beinni útsendingu á Stöð 2 sport og gaman að segja frá því að annar lýsenda, Matthías Örn Friðriksson, sem er formaður ÍPS, var leikmaður meistaraflokks Þórs í knattspyrnu 2006-2009, en hann er jafnframt einn af sterkustu pílukösturum landsins.

En snúum okkur að aðalatriðinu, viðureign Sigurðar Brynjars Þórissonar og Alex Mána Péturssonar frá Pílufélagi Grindavíkur, sem spiluðu til úrslita í yngri deildinni. Leikurinn hjá þeim yngri var styttri en í fullorðinsdeildinni og þurfti að vinna þrjá leggi til að vinna viðureignina.

Sigurður Brynjar fékk nokkur tækifæri til að klára fyrsta legginn, en gekk illa að hitta á rétta útskotið og að lokum nýtti Alex Máni sér það og vann fyrsta legginn. Annar leggurinn var nokkuð jafn, en Alex Máni var snöggur að taka út þegar hann fékk tækifæri til, fór í tvöfaldan 20 og kláraði þegar Sigurður Brynjar átti 56 eftir. Alex Máni því kominn í bílstjórasætið með 2-0 í leggjum, þurfti bara að vinna einn legg í viðbót og Sigurður Brynjar því kominn með bakið upp að vegg. Kannski þurfti hann þessa fyrstu leggi til að hitna og losa um stress og spennu og sýndi það í framhaldinu.

Sigurður var með frumkvæðið í þriðja legg og náði að taka út í annarri tilraun og minnka muninn í 2-1. Aftur var Sigurður Brynjar með frumkvæðið í fjórða leggnum og var á undan að komast í útskotstækifæri og náði aftur að taka út í annarri tilraun og jafna viðureignina, 2-2. Þar með var komið að oddalegg.

Sigurður hélt áfram að kasta af öryggi og hafði frumkvæðið í oddaleggnum og komst vel á undan Alex mána í útskotstækifæri. Gekk ekki í fyrstu tilraun þegar hann var með 42, skaut sig niður í 16. Alex Máni setti pressu á hann með góðri seríu, en Sigurður Brynjar lét það ekkert á sig fá og kláraði oddalegginn, sigraði 3-2.

Flottur árangur hjá þessum unga Þórsara, sem fékk að launum drykki frá Fitness sport, píluspjald frá Bullseye og úttekt hjá Ping pong.


Sigurður Brynjar tekur við verðlaunum fyrir þennan glæislega sigur í kvöld.


Lýsendur kvöldsins. Matthías Örn Friðriksson, formaður ÍPS og fyrrum leikmaður Þórs í knattspyrnu, til vinstri.