Úr Höllinni á HM?

Varnarmenn andstæðinga hafa átt í stökustu vandræðum með að stöðva okkar mann á línunni og stundum þ…
Varnarmenn andstæðinga hafa átt í stökustu vandræðum með að stöðva okkar mann á línunni og stundum þarf að grípa til þess að klæða hann hreinlega úr treyjunni. Stundum hefur það meira að segja verið leyft. Myndir: Þórir Tryggva

Nú eru erlendu leikmenn handknattleiksliðs Þórs í Grill 66 deildinni farnir heim í jólafrí, en einn þeirra, Kostadin „Koki“ Petrov verður mögulega lengur í burtu en þeir Josip Vekic og Jonn Rói Tórfinsson.

Koki hefur verið valinn í æfingahóp Norður-Makedónska landsliðsins og kemur liðið saman til æfinga á morgun, þriðjudaginn 20. desember, til undirbúnings fyrir HM í handbolta sem fram fer í Póllandi og Svíþjóð í janúar. Landsliðsþjálfarinn á síðan eftir að skera niður hópinn og velja endanlega þá leikmenn sem fara á HM.

Að sögn Árna Rúnars Jóhannessonar, formanns handknattleiksdeildar Þórs, var vitað af þessum möguleika þegar Koki var ráðinn til félagsins. „Við vissum af þessu strax í sumar þegar hann samdi við okkur og þess vegna hefur verið mikið álag á liðinu í nóvember og desember þar sem við færðum til leiki sem áttu að spilast í janúar. Eftir stendur einn leikur gegn Kórdrengjum og það er allt í vinnslu að færa þann leik yfir í febrúarmánuð,“ segir Árni Rúnar þegar heimasíðan hafði samband við hann til að forvitnast um mál Kokis. Framhaldið ræðst væntanlega af því hvort Koki kemst í gegnum niðurskurðinn og fer með löndum sínum á HM eða ekki. 


Það er auðvelt að sjá fyrir sér að Koki gæti hreinlega étið nokkra varnarmenn í viðskiptum þeirra á línunni. Myndir: Þórir Tryggva.

Norður-Makedónía, sem reyndar er aðeins nefnd Macedonia á vef IHF, mætir Norðmönnum í fyrsta leik föstudaginn 13. janúar, Hollandi sunnudaginn 15. janúar og Argentínu þriðjudaginn 17. janúar. Allir leikir liðsins fara fram í Kraká í Póllandi. Allar upplýsingar um mótið og leikjadagskrá má finna á HM-vef IHF - sjá hér.

Leikur við Kórdrengi á dagskrá 20. janúar

Samkvæmt leikjadagskrá HSÍ eftir áramótin er leikur Þórs og Kórdrengja á dagskrá föstudaginn 20. janúar, en eins og áður sagði fer það væntanlega eftir gengi Kokis með landsliðinu hvort farið verður fram á frestun þess leiks. Leikir í deildinni eru á dagskrá 6., 13. og 15. janúar, en Þórsarar eiga engan leik á þessum dögum enda hefur liðið núna leikið 11 leiki á meðan önnur lið hafa leikið 8-10 leiki.

Heimasíðan óskar Koki alls hins besta og vonandi fáum við að sjá hann í treyju Norður-Makedoníu á sjónvarpsskjám landsmanna í janúar. Ef ekki þá fer hvíta Þórstreyjan honum ágætlega líka.


Kostadin Petrov. Mynd: Þórir Tryggva.

Jonn Rói Tórfinsson. Mynd: Þórir Tryggva.



Josip Vekic. Mynd: Þórir Tryggva.