Aðalfundur Þórs: Framkvæmdir hefjast á Þórssvæðinu á næstu mánuðum

Ásinn er merktur með rauðu á myndinni. Þar mun verða lagt gervigras á næstu mánuðum.
Ásinn er merktur með rauðu á myndinni. Þar mun verða lagt gervigras á næstu mánuðum.

Aðalfundur Íþróttafélagsins Þórs fór fram fyrir skömmu og er óhætt að segja að mikið sé að frétta í félaginu okkar. Nói Björnsson, flutti skýrslu aðalstjórnar og er hér það sem helst bara á góma í máli hans. Það er svo sannarlega óhætt að hvetja alla Þórsara til að lesa vel yfir, því óhætt er að segja að mikið sé að frétta í félaginu okkar.

Skýrslan fylgir hér á eftir, en rétt er að vekja athygli á því að uppsettningu skýrslunnar var breytt af umsjónarmanni heimasíðu en efnisinnihald er algjörlega óbreytt).

Skýrsla aðalstjórnar vegna starfsársins 2023

Aðalstjórn sú er tók við á aðalfundi félagsins á vordögum 2023 var skipuð eftirtöldum aðilum. Nói Björnsson formaður, Ragnar Níels Steinsson varaformaður, Unnsteinn Jónsson gjaldkeri, Þorgils Sævarsson ritari, Eva Halldórsdóttir, Þóra Pétursdóttir, Íris Ragnarsdóttir, Sigurður Pálsson og Jakobína Hjörvarsdóttir. Jakobína sagði sig síðan frá stjórnarstörfum á haustdögum 2023 vegna flutnings suður á land. Stjórnin skipti með sér verkum á fyrsta fundi sjá hér að ofan.

Einn aðili hætti í stjórn félagsins á aðalfundinum 2023 en það var Ingi Steinar Ellertsson. Þökkum við honum fyrir framlag hans til félagsins. Þóra Pétursdóttir formaður stjórnar 2022-23 gaf ekki kost á sér í formanns embættið áfram en tók í stað sæti í stjórninni. Sigurður Pálsson kom síðan nýr inn í stjórnina í stað Inga.

Hjá Íþróttafélaginu Þór eru 35 stöðugildi á ársgrundvelli og eru átta deildir innan félagsins. Fastir fundir aðalstjórnar voru tveir í mánuði. Töluvert hefur verið fundað með stjórnum deilda félagsins. aðallega til að fylgjast með gangi mála og vera í sem bestum tengslum við sjálboðaliða. Skipta aðalstjórnarmenn þeim verkefnum á milli sín.

Uppbygging á Þórssvæðinu er stóra verkefnið

Verkefni aðalstjórnar eru margvísleg en aðalverkefni okkar sem stjórnarfélagsins eru viðræður við Akureyrarbæ um uppbygginguna á félagsvæði okkar, uppbyggingu sem nær að sameina félagið okkar. Íþróttafélagið Þór er með æfingaaðstöðu út um allan bæ og allt að 35% félagsmanna/iðkenda þurfa jafnvel aldrei að koma í félagsheimilið okkar allan sinn feril í íþróttum og sama má segja um alla þeirra aðstandendur. Það er mottó þessarar stjórnar að tryggja að hafist verði handa við að byggingu á íþróttahúsi við Hamar á kjörtímabilinu.

Öll okkar nálgun í þessu samtali er uppbygging fyrir unga fólkið okkar, bætt æfingaaðstaða fyrir yngri flokka félagsins er það sem við vinnum með og ætlum að bæta. Að sjálfsögðu mun öll bætt aðstaða nýtast þeim eldri líka. Fyrir liggur að gervigras verði lagt á Ásinn og eiga þær framkvæmdir að hefjast á næstu vikum og klárast á vordögum árið 2025. Síðan koma þessar eilífu vangaveltur um hvað þarf meira til, til að við getum leikið okkar heimaleiki á þeim velli sem þarna verður settur niður þar til að aðalvöllurinn okkar verður settur gervigrasi.

 

Eins og áður hefur komið fram þá er okkur í aðalstjórn mikið í mun að sameina okkar félagsmenn enn frekar. Við erum með miklar væntingar til núverandi bæjarstjórnar og horfum við til þess að byrja á grunni fyrir íþróttahúsi í lok þessa kjörtímabils vorið 2026. Stjórnin skipaði framkvæmdahóp fyrir félagið og hefur Ragnar varaformaður verið okkar lykilmaður þar eins og fram kom á félagsfundi okkar. Ragnar hefur lagt gríðarlega mikla og vandaða vinnu í verkefnið. Mikil vinna hefur verið í gangi frá síðustu sveitarstjórnarkosningum við að koma sjónarmiðum félagsins á framfæri og upplýsa sveitarstjórnarfólk um aðstöðuleysi okkar. Einnig hefur verið mikil undirbúningsvinna varðandi skipulag á svæðinu öllu, þarfagreiningu og staðsetningu íþróttahússins og margt fl.. Ýmsar sviðsmyndir hafa verið dregnar upp varðandi svæðið og næsta nágrenni. Það eru spennandi tímar framundan hjá félaginu okkar. Stefnum við á að boða til annars félagsfundar á næstu vikum og upplýsa okkar fólk um stöðu mála.

Önnur mál sem vert er að geta hér er upplyfting á Hamri félagsheimilinu okkar. Undanfarin ár hefur húsið verið tekið í gegn en þar sem mikil er umferð, er viðhald eilífðarverkefni. Undirbúningsvinna að breytingum hefur verið í gangi í nokkra mánuði. Sama má segja um Þórshöllina, heimavöll handboltans og körfunnar, þar hefur verið unnið að ýmsum málum en því miður hefur okkur gengið illa að tryggja handbolta og körfubolta fólki okkar viðunandi aðstöðu fyrir þeirra starf nema að litlum hluta.

Öflugt félagsstarf, nýtt skipurit og gott slagorð

Orðunefnd félagsins vann góða vinnu á árinu fyrir afmæli félagsins , margir aðilar voru heiðraðir á afmælidegi félagsins þann 06.06. Um 35 manns fengu afhent gullmerki félagsins, einnig voru afhent silfur og brons merki. Fjórir heiðursfélagar bættust í hópinn hjá okkur. Virkilega ánægjulegt að sjá allan þann fjölda sem mætti í Hamar á þessum hátíðisdegi okkar.

Heilinn hugarþjálfun er einnig verkefni sem hefur verið í gangi hjá okkur og mun verða unnið með áfram.

Þá er framundan er vinna við skipurit félagsins, alltaf koma af og til upp umræður um skipurit félagsins og þurfum við að setjast yfir það á næstu misserum hvort ástæða er til að breyta einhverju þar .

Ágæt umræða hefur átt sér stað um slagorðið okkar DFK og er það vel, ef rýnt er í það er óhætt að segja að slagorðið okkar sé gríðarlega vel heppnað og munum við nýta okkur það enn frekar en áður.

Reksturinn er og verður krefjandi

Rekstur félagsins er og verður alltaf mjög krefjandi, árið 2022 var félaginu frekar erfitt þegar á heildina er litið en á árinu 2023 náðum við að snúa rekstrinum við og niðurstaðan er mjög góð fyrir árið, rekstrartekjur kr. 418.757.892 og rekstrargjöld kr. 402.254.509, hagnaður félagsins kr. 16.643.930. Í þessu umhverfi er þekking starfsfólks félagsins gríðarlega mikilvæg og njótum við þar mikillar gæfu. Staða deilda félagsins er mjög misjöfn, sumar deildir eru að vinna við mjög krefjandi aðstæður meðan aðrar eru reknar með miklum ágætum. Unglingaráð deildanna spila stór hlutverk innan félagsins og eru ráðin vel mönnuð og virkilega vel unnið á þeim vetfangi.

Iðkendur hjá félaginu eru í kringum 1000 einstaklingar, töluverð aukning hefur orðið í körfunni hjá okkur og einnig í handboltanum. Píludeildin hefur einnig vaxið mikið og er hún sú stæsta á landinu samkvæmt síðustu fréttum. Aðstaðan hjá deildin er einstaklega vel heppnuð en eins og víða annars staðar hjá okkur er deildin búin að sprengja aðstöðuna hjá sér og erum við að skoða alla möguleiki til að stækka þeirra aðstöðu og jafnvel færa okkur um set. Unglingastarf píludeildarinnar er vaxandi og er það vel, mikill áhugi er á pílu eins og sést hefur og þar sjáum við hvað sjónvarpið áorkar miklu við að lyfta upp íþróttagreinum. Hnefaleikadeildin er í ágætri aðstöðu í Laugargötunni en þolir vel að fá meira pláss undir sína starfsemi. Taekwondo hefur aðstöðu í Íþróttahúsi Oddeyarskóla og sleppur húsnæðið þar þokkalega eins og staðan er. Deildin hefur þó óskað eftir stærra plássi fyrir sína starfsemi inní framtíðina. Nýkringdir Íslandsmeistarar okkar í rafíþróttadeildinni eru einnig búnir að sprengja utan af sér húsnæðið, þar fyrir utan er húsnæðið alls ekki gott sem deildin hefur yfir að ráða. Eins og margar okkar deilda og er húsnæðisskorturinn farinn að standa okkur fyrir þrifum þar eins og víða annarsstaðar. Keiludeildin verður líklega alltaf olnbogabarn hjá félaginu vegna smæðar sinnar og mikils kostnaðar við uppbyggingu aðstöðu. Við skulum þó aldrei segja aldrei, kannski verður hægt að skoða eitthvert rými í íþróttahúsinu þegar það kemur.

Eins sjá má á þessari yfirferð var mikil gróska í starfinu hjá okkur árið 2023 heilt yfir og ánægjulegt að vera þátttakandi í því.

Að lokum langar mig fh. aðalstjórnar að þakka starfsfólki fyrir vel unnin störf og ánægjulegt samstarf á árinu. Einnig viljum við þakka stjórnarfólki og öðrum sjálfboðaliðum fyrir samstarfið, óeigingjarna vinnu, elju og mettnað. Að endingu þökkum við öllum samstarfsaðilum fyrir þeirra aðkomu að framgangi félagsins.

Árið 2024 fer af stað með látum!

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að ljúka þessari yfirferð án þess að grípa niður í verkefnin sem félagið hefur verið að fást við undanfarnar vikur og hefur lyft félaginu okkar á nýjan stall bæði íþróttalega og félagslega. Þar á ég við Sjalla Pally verkefni píludeildarinnar, gríðarlega vel gert hjá deildinni og þannig unnið að eftir var tekið. Íslandsmeistaratitill rafíþróttadeildarinnar frábærlega gert hjá okkar fólki þar. Bikarúrslitaleikur kvenna í körfunni, úrslitakeppnirnar í körfu og handbolta. Liðin okkar voru að standa sig vel og áhugi félagsmanna mjög mikill, gríðarlega vel mætt á alla leiki og stuðningmenn okkar vel með á nótunum.

Ef einhver er með þá hugmynd enn þá í kollinum að handboltinn hjá Þór sé að líða undir lok þá ætti sá hinn sami að skammast sín og horfa sér nær. Áhorfendur á síðasta heimaleik okkar í úrslitakeppninni voru líklega um 1.000 manns og geri aðrir betur þar. Þó svo að liðið okkar hafi ekki skilað sér á milli deilda í þessari lotu þá stöndum við saman öll sem eitt og gerum það næsta vor og ekkert væl.

Ný aðalstjórn 2024-25

Ný aðalstjórn var kosin á aðalfundi félagsins þann 30.04 fyrir starfsárið 2024-25, stjórnin hefur þegar skipt með sér verkefnum og er skipuð eftirtöldum aðilum. Nói Björnsson formaður, Ragnar Níels Steinsson varaformaður, Unnsteinn Jónsson gjaldkeri, Þorgils Sævarsson ritari, Eva Halldórsdóttir, Íris Ragnarsdóttir, Sigurður Pálsson, Hjálmar Pálsson nýr inn, Árni Rúnar Jóhannesson nýr inn. Þóra Pétursdóttir gengur úr aðalstjórn frá síðasta ári og þökkum við henni ómetanlegt framlag sitt til félagsins síðustu ár.

Fh Aðalstjórnar Þórs

Nói Björnsson formaður

#DFK#