Fyrsta æfing á gervigrasinu á Ásnum

Íslandsmeistararnir í 2.flokki karla vígðu nýuppgerðan gervigrasvöll á Ásnum.
Mynd - Skapti Hallgrí…
Íslandsmeistararnir í 2.flokki karla vígðu nýuppgerðan gervigrasvöll á Ásnum.
Mynd - Skapti Hallgrímsson

Það var gleðileg stund síðastliðinn sunnudag þegar strákarnir í 2.flokki reimuðu á sig takkaskóna og fóru út á völl á æfingu á Þórssvæðinu þrátt fyrir að dagatalið segði 2.nóvember.

Nýr gervigrasvöllur á Þórssvæðinu er tilbúinn og var þetta fyrsta æfingin sem fram fór á vellinum. Tilkoma vallarins mun bylta starfi knattspyrnudeildar næstu árin og eftir mörg erfið ár með tilliti til aðstöðu til keppni og æfinga horfir nú til betri tíðar.

Hins vegar er völlurinn ekki kominn í fulla notkun þar sem enn er verið að klára að leggja hitalagnir að svæðinu. Einnig nýtist völlurinn afar takmarkað á þessum árstíma þegar ekki er hægt að kveikja á flóðlýsingunni en verið er að klára uppsetningu á tæknirými.

Því er aðeins hægt að æfa á vellinum milli klukkan 11 og 16:30 þessa dagana vegna birtuskilyrða og um leið og fer að snjóa eða frysta verður völlurinn ófær á meðan ekki er kominn hiti undir völlinn. Því er ljóst að knattspyrnufólk í Þór liggur á bæn um áframhaldandi veðurblíðu þangað til undirhiti og flóðlýsing verður kominn í gagnið.

Þá er enn töluverð vinna eftir við frágang kringum völlinn en þrátt fyrir það er hægt að nýta völlinn til æfinga og hafa yngri flokkar verið að æfa á vellinum í vikunni þó verið sé að vinna í kringum gervigrasflötinn.

Ármann Pétur Ævarsson, þjálfari 2.flokks, á fyrstu æfingunni á Ásnum. Þegar Ármann Pétur var í yngri flokkum Þórs var malarvöllur á Ásnum. Mynd - Skapti Hallgrímsson.