Bikardraumurinn úti eftir tap gegn Víkingi

Þórsarar eru úr leik í Mjólkurbikarkeppninni eftir hetjulega baráttu og eins marks tap á heimavelli gegn bikarmeisturum Víkings. Þegar upp var staðið kom það okkar mönnum í koll að fá á sig mark snemma í báðum hálfleikjum.

  • 0-1 Helgi Guðjónsson (5')
  • 1-1 Ingimar Arnar Kristjánsson (16')
  • 1-2 Ari Sigurpálsson (46')

4. mínúta: 0-1 - Helgi Guðjónsson, stoðsending: Danijel Dejan Djuric
Víkingar vinna boltann rétt fyrir utan vítateig Þórsara. Davíð Örn Atlason á skondna sendingu inn á teiginn vinstra megin, Danijel Dejan Djuric kemur hlaupandi og sendir háa og skondna sendingu fyrir markið þar sem Helgi Guðjónsson er inni í markteig á fjærstöng og klippir boltann í markið.

16. mínúta: 1-1 - Ingimar Arnar Kristjánsson
Víkingar eiga innkast langt inni á eigin vallarhelmingi. Ingimar Arnar Kristjánsson kemst inn í sendinguna í innkastinu, boltinn berst til Alexanders Más Þorlákssonar sem á skot í varnarmann. Þaðan fær Ingimar Arnar boltann aftur, á skot í stöng, hirðir frákastið og skorar af suttu færi.

46. mínúta: 1-2 - Ari Sigurpálsson
46. mínúta - Víkingar í sókn, misheppnuð hreinsun hjá okkar mönnum inni í teig og boltinn berst til Ara Sigurpálssonar sem skorar af stuttu færi. Ekki mínúta liðin af seinni hálfleiknum.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu náðu Þórsarar ekki að svara fyrir þessa óheppilegu byrjun á seinni hálfleiknum og Víkingar fóru með 2-1 sigur af hólmi og eru því komnir áfram í undanúrslit Mjólkurbikarsins. 

Því var auðvitað engin virðing sýnd inni á vellinum að þar væru bikarmeistarar á ferð, Þórsarar börðust og vörðust, en náðu ekki að skora í seinni hálfleiknum til að jafna leikinn. Stuðningurinn var frábær og stemningin innan sem utan vallar skemmtileg, eins og á að vera, hvort sem bikarmeistararnir eða neðsta lið næstefstu deildar kemur í heimsókn.

Leikurinn var sýndur beint á RÚV 2  - sjá hér.

Það verða þá ekki fleiri bikarleikir hjá okkar mönnum á þessu ári, en næsti leikur liðsins er í Lengjudeildinni, útileikur gegn Þrótti föstudaginn 9. júní kl. 18.