Tvenn bronsverðlaun og breytilegt veður í Barcelona

Á fimmta tug Þórsara héldu til Spánar á öðrum degi páska.

Um er að ræða drengi fædda árið 2005, 2006 og 2007, það er að segja úr 3.flokki og yngsta ári 2.flokks í fótbolta. Þeir hafa æft og keppt við góðar aðstæður á Spáni undanfarna daga þó ekki hafi nú verið Spánarveður á hópnum alla dagana.

Til að mynda léku elstu strákarnir í ferðinni æfingaleik á miðvikudag þar sem aðstæður voru afar erfiðar þar sem rigndi mikið auk þess sem þrumur og eldingar settu svip sinn á síðari hálfleik. Strákarnir léku við jafnaldra sína frá Spáni, Costa Daurada juvenil, og höfðu okkar drengir 4-3 sigur í hörkuleik þar sem Ingimar Arnar Kristjánsson gerði þrjú mörk og Viktor Smári Sveinsson eitt.

Um helgina fór svo fram Barcelona Cup hjá árgöngum 2006 og 2007.

2006 árgangurinn vann sinn riðil sem samanstóð af liðum frá Írlandi, Frakklandi og Finnlandi. Í undanúrslitum mættu strákarnir norður-írska liðinu Coleraine FC og eftir markalaust jafntefli þurftu okkar drengir að sætta sig við tap í vítaspyrnukeppni. Strákarnir hristu af sér vonbrigðin fyrir bronsleikinn og unnu öruggan 3-0 sigur og tryggðu sér þar með bronsverðlaun.

2007 árgangurinn hafnaði í 2.sæti síns riðils sem samanstóð af liðum frá Spáni og Frakklandi. Í undanúrslitum töpuðu strákarnir 2-0 fyrir írska liðinu Kerry en líkt og eldri strákarnir náðu þeir að peppa sig í gang fyrir leikinn um 3.sæti þar sem þeir unnu 2-1 sigur á MPS Helsinki frá Finnlandi.

Sannarlega góður undirbúningur fyrir fótboltasumarið á Íslandi en strákarnir halda nú heim á leið ásamt þjálfurum sínum, Andra Hjörvari Albertssyni og Kristjáni Sigurólasyni auk öflugum fararstjórum. Óskum við þeim góðrar heimferðar.