Flottur sigur á Fylki í lokaleik tímabilsins

Mynd: Páll Jóhannesson
Mynd: Páll Jóhannesson

Þórsarar fengu topplið Fylkis í heimsókn á Þórsvöll í síðustu umferð Lengjudeildarinnar í fótbolta. 

Fylkismenn hafa haft töluverða yfirburði yfir öðrum liðum í Lengjudeildinni í sumar og voru búnir að tryggja sér toppsætið þegar kom að leiknum. Hafði Árbæjarliðið raunar unnið tólf leiki í röð og mættu því fullir sjálfstrausts til leiks í Þorpið. Okkar menn hafa verið á góðri siglingu seinni hluta tímabils og ætluðu sér að binda endi á sigurgöngu gestanna.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en laglegt mark Ion Perello eftir tæplega hálftíma leik gerði það að verkum að okkar menn höfðu forystu í leikhléi.

Síðari hálfleikur byrjaði ekki vel fyrir Þór því Fylkismenn jöfnuðu metin skömmu eftir að flautað hafði verið til síðari hálfleiks. Bæði lið ætluðu sér sigur og sigurmarkið kom á 87.mínútu þegar Sigfús Fannar Gunnarsson skoraði fyrir Þór eftir vel útfærða skyndisókn.

Lokatölur 2-1 fyrir Þór og lýkur liðið keppni í sjöunda sæti deildarinnar með 30 stig.

Myndir úr leiknum: Palli Jóh 

Hér má lesa umfjöllun Fótbolta.net um leikinn.