Gleðilegt fótboltasumar

Þórssvæðið um hásumar. Mynd: Þorgeir Baldursson
Þórssvæðið um hásumar. Mynd: Þorgeir Baldursson

Arnar Geir, yfirþjálfari yngri flokka skrifar

Kæru Þórsarar.

Það er spennandi fótboltasumar í vændum í Þorpinu og fer það formlega af stað hjá Þór þegar meistaraflokkur karla fær Samherja í heimsókn í Mjólkurbikarnum í kvöld. Næstkomandi miðvikudag fer Þór/KA í heimsókn til Breiðabliks í Bestu deild kvenna og þann 1.maí fer Íslandsmót yngri flokka á fullt.

Strákarnir hafa spilað skemmtilegan fótbolta í vetur og gefið bestu liðum landsins ekkert eftir í Lengjubikarnum og verður spennandi að fylgjast með liðinu í Lengjudeildinni.

Í 23 manna leikmannahópi meistaraflokks karla hafa átján leikmenn farið í gegnum barna- og unglingastarf félagsins. Liðið er ungt og í Lengjubikarnum komu sjö strákar á 2.flokks aldri við sögu.

Stelpurnar eru á leiðinni í sitt sautjánda tímabil í röð í efstu deild og hafa endurheimt leikmenn sem ólust upp í félaginu en hafa undanfarin ár leikið í atvinnumennsku.

Í 23 manna leikmannahópi meistaraflokks kvenna, Þór/KA hafa nítján leikmenn farið í gegnum barna og unglingastarf félaganna og léku átta stelpur, ýmist á 2. eða 3.flokks aldri með liðinu í Lengjubikarnum.

Þó það sé gott, mikilvægt og gleðilegt þegar leikmenn úr unglingastarfinu ná upp í aðallið félagsins er ekki síður gott og gleðilegt að við fáum leikmenn annars staðar að, hvort sem það er erlendis frá eða úr öðrum íslenskum félögum. Við sem erum uppalin í félaginu eigum að taka því fagnandi þegar leikmenn ákveða á fullorðinsaldri að gerast Þórsarar.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum í félaginu að meistaraflokksliðin hafa lagt hart að sér við æfingar í vetur og því er vel við hæfi að Þórsarar fylki sér nú á bak við liðin og styðji þau í baráttunni í sumar.

Nokkrar tölulegar staðreyndir úr yngri flokkum

Í ár teflir Þór fram 21 liði í Íslandsmóti yngri flokka; það er frá 2.flokki og niður í 5.flokk en líkt og undanfarin ár er samstarf milli Þórs og KA um 2. og 3.flokk kvenna.

Frá 1.maí-19.september munu þessi lið leika samtals 264 leiki í Íslandsmóti en við þá tölu munu eflaust bætast einhverjir leikir þar sem liðin geta unnið sér sæti í úrslitakeppni.

Iðkendur í 2.-8.flokki eru 513 talsins sem stendur; er það með hæsta móti sögulega séð hjá félaginu en við vonumst alltaf eftir því að bætist í hópinn hjá okkur yfir sumartímann og vert að benda á að öllum krökkum er alltaf frjálst að koma og prófa að æfa fótbolta.

28 þjálfarar eru að þjálfa í yngri flokkum Þórs um þessar mundir og mun sú tala hækka í sumar. Yngstu þjálfararnir eru sextán ára gamlir en þeir elstu 52 ára.

Fótboltasumarið 2021 léku 56 leikmenn sem farið hafa í gegnum barna og unglingastarf Þórs með öðrum félögum í Íslandsmóti meistaraflokks. Félögin sem um ræðir eru KR, FH, Valur, Stjarnan, KA, ÍA, Tindastóll, Grótta, Magni, KF, Fjarðabyggð, Dalvík/Reynir, Elliði, Einherji, KFS, Samherjar og Hamrarnir.

Aðstöðuleysi helsta áskorunin

Á meðan iðkendum hefur fjölgað á undanförnum árum hefur þrengt verulega að æfinga- og keppnissvæðum yngri flokka Þórs í fótbolta og stefnir í óefni.

Það er efni í annan pistil sem verður ekki skrifaður hér og nú en þó skal það koma fram að Þórsarar geta ekki sætt sig við hvernig komið hefur verið fram við félagið í þessum málum á undanförnum árum.

Við horfum til framtíðar með þá von í brjósti að bæjaryfirvöld fari að sjá að sér og hefjist handa við að byggja upp aðstöðu sem sæmir Þór á félagssvæðinu sem allra fyrst. Aðstöðu sem hefur fyrir löngu verið lofað.

Fylgstu með á samfélagsmiðlum

Eins og farið hefur verið yfir hér verður mikið um að vera í fótboltanum hjá Þór í sumar og til að vera vel með á nótunum er gott að fylgjast með samfélagsmiðlum félagsins sem eru á tenglunum hér að neðan.

Þangað inn koma reglulegar fréttir úr starfinu auk þess sem viðburðir eru reglulega auglýstir.

Þór – Fótbolti á Facebook 

Þór – Fótbolti á Twitter

Þór – Fótbolti á Instagram

Yngri flokkar knattspyrnudeildar Þórs á Facebook

Íþróttafélagið Þór á Facebook

Íþróttafélagið Þór á Instagram

Allir á völlinn og áfram Þór!

Arnar Geir Halldórsson, yfirþjálfari yngri flokka