Íþróttafólk Þórs - kjöri lýst 6. janúar

Hin árlega samkoma Við áramót verður haldin í Hamri föstudagskvöldið 6. janúar 2023. Dagskráin verður hefðbundin og lýkur henni með því að íþróttakona og íþróttakarl Þórs verða krýnd. 

Eins og glöggir lesendur átta sig á verður þessi athöfn á þrettándanum og þá rétt að upplýsa í leiðinni þrettándagleði Þórs, eins og félagsfólk og aðrir Akureyringar þekkja hana, verður ekki haldin.

Dagskrá hátíðarinnar verður kynnt betur þegar nær dregur, en samkvæmt venju býður félagið Íslandsmeistara og landsliðsfólk sérstaklega velkomið á athöfnina. Hápunkturinn verður að sjálfsögðu þegar kjöri íþróttafólks Þórs verður lýst.

Deildum félagsins gafst kostur á að tilnefna einstaklinga úr sínum röðum, karl og konu eftir atvikum. Kjör íþróttafólks Þórs fer fram samkvæmt reglugerð þar um og eru það aðalstjórnarfulltrúar sem kjósa á milli þess íþróttafólks sem tilnefnt er af deildunum. Þau sem verða fyrir valinu verða síðan fulltrúar félagsins við kjör ÍBA á íþróttafólki Akureyrar, en jafnframt er heimilt að félagið tilnefni fleiri einstaklinga ef ástæða og árangur þykja gefa tilefni til.

Alls voru níu einstaklingar í kjöri þetta árið, en því miður komu ekki tvær tilnefningar (karl og kona) frá öllum deildum, eins og heimilt er. Eftirtalin eru tilnefnd af deildunum og eru í kjöri sem íþróttafólk Þórs. Textinn sem fylgir myndunum neðar í fréttinni er sá texti sem deildirnar sendu inn þegar viðkomandi tilnefningu var skilað. Hinum tilnefndu er þar raðað í stafrófsröð, fyrst konum og síðan körlum.