Körfubolti: Baráttusigur á bikarmeisturunum

Frábært lið, frábær liðsheild. Trúin flytur fjöll! Mynd: Páll Jóhannesson.
Frábært lið, frábær liðsheild. Trúin flytur fjöll! Mynd: Páll Jóhannesson.

Þórsarar unnu magnaðan sigur á bikarmeisturum Hauka eftir æsispennandi lokamínútur í 7. umferð Subwaydeildar kvenna í kvöld. Lokatölur urðu 74-69 eftir að gestirnir höfðu leitt með 14 stigum að loknum fyrsta fjórðungi.

Það benti reyndar fátt til þess í fyrsta leikhluta að stelpurnar okkar myndu ná að standa uppi í hárinu á öflugu liði Hauka. Fátt gekk upp og liðið tapaði boltanum ítrekað, staðan 9-23 þegar fyrsta leikhlutanum lauk. Það sýnir kannski best karakterinn og hæfileikana sem í liðinu búa að munurinn var kominn úr 14 stigum niður í sex stig áður en fyrri hálfleiknum lauk. Haukar með sex stiga forystu eftir fyrri hálfleikinn, 33-39.

Það sýndi sig svo í seinni hálfleiknum hve miklu öflugur stuðningur og góð stemning í stúkunni getur skilað þegar á reynir. Með orkuna úr stúkunni að vopni unnu stelpurnar okkar þriðja leikhlutann með þremur stigum og héldu áfram að þurrka upp forskotið eftir því sem leið á fjórða leikhlutann. Þær jöfnuðu síðn í 64-64 í fyrsta skipti síðan á upphafsmínútunum. Þá voru tæpar fimm mínútur eftir og þær urðu æsispennandi.

Lore Devos kom Þór í fyrsta skipti yfir, 68-66 þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru eftir. Það var í fyrsta skipti frá því í stöðunni 3-0 sem Þór var yfir. Lore skoraði svo aftur í næstu sókn og kom Þór í 70-66 þegar 2:35 mínútur voru eftir. Þannig var staðan reyndar í næstum tvær mínútur eftir darraðadans fram og til baka. Haukar minnkuðu muninn í tvö stig, 70-68, þegar 39 sekúndur voru eftir. Þórsarar fóru í sókn sem gekk brösuglega, en á endanum náði Maddie af harðfylgi að skora tveggja stiga körfu, 72-68. Munurinn fjögur stig og 14 sekúndur eftir. Haukar fengu tvö vítaskot, en nýttu aðeins það fyrra, 72-69, Maddie Sutton tók frákastið, Haukar brutu þegar átta sekúndur voru eftir. Þórsliðið var ekki komið með skotrétt þannig að áfram þurftu Haukar að brjóta og sekúndurnar hurfu af klukkunni smátt og smátt. Lore Devos fékk svo tvö vítaskot þegar um þrjár sekúndur voru eftir, skoraði úr báðum og munurinn orðinn fimm stig, 74-69 og það urðu lokatölur leiksins.

Vís maður sagði að leik loknum að betra væri að eiga slæman fyrsta leikhluta en þann þriðja því þá væru þrír leikhlutar eftir til að vinna upp muninn. Það var einmitt það sem gerðist í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Þórsarar áttu slæman fyrsta leikhluta, en litu svo ekkert í baksýnisspegilinn eftir það, unnu næstu þrjá leikhluta samanlagt með 19 stigum, voru yfir í aðeins fimm mínútur, en það voru lokamínúturnar og það er það sem skiptir máli þegar upp er staðið. Frábær sigur, frábær stuðningur úr stúkunni, sérstaklega í seinni hálfleiknum.

Maddie Sutton átti stórleik, skoraði 23 stig, tók 16 fráköst og átti sjö stoðsendingar. Hún var í leikslok valin Þórsari leiksins, Sjóvá-leikmaður leiksins, og fékk að launum gjafabréf frá AK-inn. Tinna Alexandersdóttir og Keira Robinson voru mest áberandi í liði gestanna.

Þór - Haukar (9-23) (24-16) 33-39 (19-16) (22-14) 74-69

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Maddie Sutton 23/16/7, Lore Devos 21/8, Eva Wium Elíasdóttir 14/4/4, Jovanka Ljubetic 6/5/2, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 5/4/3, Hrefna Ottósdóttir 3/2, Heiða Hlín Björnsdóttir 2/4/2.

Haukar: Tinna Alexandersdóttir 19/2, Keira Robinson 18/16/9, Lovísa Björt Henningsdóttir 10/6, Helena Sverrisdóttir 9/5/2, Sólrún Gísladóttir 6/4/1, Þóra Kristín Jónsdóttir 5/1/3, Agnes Jónudóttir 2/2/1, Rósa Björk Pétursdóttir tók tvö fráköst og átti eina stoðsendingu.

Tölfræðivefurinn var í villuvandræðum í kvöld og því erum við ekki með tengil á ítarlega tölfræði leiksins.

Fjórum leikjum er lokið af fimm í umferðinni og Þór nú með fjóra sigra eins og Stjarnan og Njarðvík. Þar fyrir ofan eru Valur og Grindavík með fimm sigra og Keflavík á toppnum með fullt hús, sjö sigra. Njarðvík á leik til góða gegn Fjölni á morgun.

Tæpar þrjár vikur eru í næsta leik Þórsliðsins, en þá bregða stelpurnar sér til Grindavíkur. Í millitíðinni er landsleikjahlé.