Körfubolti: Frækinn sigur á Króknum

Strákarnir í 11. flokki Þórs í körfubolta gerðu góða ferð á Krókinn í gær þegar þeir mættu liði Tindastóls, en liðin hafa oft háð kappi á síðastliðnum tveimur árum og hefur Tindastóll oftar en ekki staðið uppi sem sigurvegari í viðureignum liðanna.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur í gær en má þar helst þakka Birki Jónssyni en hann fór mikinn í þriggja stiga skotum í byrjun leiks. Stólarnir náðu þó að saxa á forskotið og leiddu 28-24 eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta héldu heimamenn áfram að auka forskotið og mátti merkja ákveðið andleysi hjá Þórsurum þegar þarna er komið sögu og var staðan 50-41 í hálfleik.

Hlynur Freyr Einarsson, Sauðkrækingur og þjálfari drengjanna, var þó ekki tilbúinn að leggja árar í bát og hefur stappað stálinu í sína menn í hálfleik því allt annað var upp á teningnum í síðari hálfleik. Stólarnir héldu áfram að leika vel og má þar helst nefna Alex Arnarson en hann hefur reynst Þórsurum erfiður ljár í þúfu ansi oft en hann skilaði að lokum 43 stigum fyrir sitt félag í gær. Þórsarar voru þó ákveðnir í að gefast ekki upp og var það helst varnarleikurinn sem var mun betri í síðari hálfleik. Eftir þrjá leikhluta leiddi þó Tindastóll með 13 stigum.

Í fjórða leikhluti stigu Þórsarar enn betur upp og fóru skotin að detta betur og varnir að þéttast. Þórsarar minnkuðu muninn hægt og þétt og með körfu Ísaks Otra Finnssonar á lokasekúndu leiksins náðu þeir að jafna leikinn og koma honum í framlengingu. Þórsarar skoruðu 31 stig á móti 18 stigum heimamanna í fjórða leikhluta.

Framlengingin var æsispennandi en Þórsarar byrjuðu betur og komust mest í fimm stiga forskot. Axel Arnarsyni tókst þó að minnka muninn í eitt stig þegar hann hitti úr þriggja stiga skoti og fékk víti að auki þegar innan við mínúta var eftir af leiknum. Þórsarar héldu þó haus og spiluðu mjög skynsamlega lokamínútuna og settu niður mjög mikilvæg víti í lok framlengingarinnar og þriggja stiga sigur, 100-103, orðin að staðreynd.

Hlutskarpastir hjá Þór voru Aron Jónsson með 24 stig en Aron spilaði einnig frábæran varnarleik og varði fjölda skota í síðari hluta leiksins. Pétur Áki Stefánsson skilaði 20 stigum og komu 18 þeirra í síðari hálfleik og þar með taldir þrír þristar sem komu Þórsurum aftur inn í leikinn. Birkir Jónsson byrjaði leikinn mjög vel og hélt kúrs það sem eftir lifði leiks og endaði leikinn með 19 stig. Ísak Otri Finnson átti svo frábæra innkomu í síðari hluta fjórða leikhluta og í framlengingu og endaði með 10 stig. Ýmir Heafield skoraði einnig 10 stig fyrir Þór.

Frækinn liðssigur hjá 11. flokki Þórs á Sauðárkróki, en allir 12 leikmenn Þórs komu inn á og áttu þeir allir þátt í sigrinum í frábærri stemningu í Síkinu en gert er ráð fyrir að um 100 manns hafi sótt leikinn. Lið 11. flokks skipa eftirfarandi leikmenn sem eru fæddir 2007 og 2008.

Aron Geir Jónsson (2007)
Birkir Orri Jónsson (2007)
Dagur Vilhelm Ragnarsson (2008)
Daníel Davíðsson (2008)
Ísak Otri Finnson (2007)
Magnús Páll Bergmann Ívarsson (2007)
Michael Hugi Halldórsson (2008)
Nói Rúnarsson (2007)
Orri Páll Pálsson (2007)
Pétur Áki Stefánsson (2007)
Snæbjörn Ingi Þorbjörnsson (2007)
Ýmir Heafield (2007)

Í liðið í gær vantaði

Gunnar Hólm Hjálmarsson (2007)
Véstein Arnþór Garðarsson (2007)

Ekki náðust myndir af leik gærdagsins vegna spennu en meðfylgjandi myndir eru úr ferð drengjanna með 10. flokki til Philadelphia síðastliðið sumar en flokkarnir fóru í æfingarferð hjá Philadelphia 76´ers.