Ósigur á Ísafirði

Skjáskot úr YouTube-útsendingu þegar Vestramenn skora eina mark leiksins.
Skjáskot úr YouTube-útsendingu þegar Vestramenn skora eina mark leiksins.

Þórsarar sóttu ekki gull í greipar Vestjarða þegar þeir heimsóttu Vestra í 13. umferð Lengjudeildarinnar. Vannýtt færi komu þeim í koll þegar upp var staðið.

Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn og allt þar til á 81. mínútu. Þá höfðu Þórsarar náð að skapa sér nokkur góð færi, en þau nýttust ekki. Það kom í bakið á þeim þegar heimamenn skoruðu eina mark leiksins eftir aukaspyrnu og baráttu í teignum þar sem boltinn féll fyrir fætur Silasar í markteignum og hann náði að skora. Sigur Vestra staðreynd og með stigunum þremur klifruðu Vestramenn upp fyrir Þórsara í töflunni.

  • 1-0 - Silas Dylan Songani (81').

Þórsarar hafa nú lokið 12 leikjum og sitja í 9. sæti deildarinnar með 14 stig, jafnir Þrótturum sem hafa betri markamun, en hafa þó spilað einum leik meira. Þrátt fyrir allt eru þó ekki nema þrjú stig upp í 5. sætið, en með breytingu á fyrirkomulagi deildarinnar fara liðin í 2.-5. sætí í umspil um það hvaða lið fylgir toppliðinu upp í Bestu deildina. Uppskeran hefur hins vegar verið rýr að undanförnu og aðeins tvö stig komið í hús af síðustu 15 mögulegum, tvö jafntefli og þrír ósigrar. Síðasti sigurinn kom 16. júní á heimavelli gegn Selfyssingum.

Næsti leikur Þórsara verður þriðjudaginn 25. júlí kl. 18 þegar Grótta mætir norður.

Upptaka af leiknum er á YouTube-rás Lengjudeildarinnar og hér má sjá markið.