Reykjavíkurferð 3.flokks

Nýliðna helgi fóru drengir úr 3. flokki handboltans til Reykjavíkur að keppa. Föstudagurinn byrjaði á Bikarleik við sterkt lið FH-inga í Kaplakrika. Sá leikur endaði með tapi okkar manna 38-25. Enn það spilast ekki sá handboltaleikur, að ekki sé hægt að læra eitthvað af honum og hafa leikmenn og þjálfarar nú þegar farið yfir leikinn til að stilla strengina enn betur. Eftir góða næringu og svefn var næsti leikur á laugardeginum en dagurinn byrjaði þó á því að skanna Smáralindina og horfa á leik Þórs og Vals í Grilldeildinni. Þar voru einnig nokkrir 3.flokks menn á leikskýslu.

Annar leikur ferðarinnar var í Grafarvogi þar sem við spilað var við Fjölni/Fylki. Þar duttu okkar menn í gírinn. Leikurinn var vel spilaður af okkar mönnum og bættu þeir upp fyrir bikarleikinn, deginum áður. Varnarleikurinn var sennilega sá besti í vetur og þá fylgir markmaðurinn alltaf með og lauk leiknum með 7 marka mun okkar mönnum í vil, 20-27. Á sunnudeginum var komið að ÍR, þeirra nýja húsnæði er til algjörrar fyrirmyndar. Leikurinn þróaðist því miður ekki okkur í hag og í hálfleik voru okkar menn ekki sáttir með leik sinn. En það má fylgja með að seinni hálfleikinn vannst en það dugði þó ekki til og endaði leikurinn með sigri ÍR 31-25.
Enn uppbygging heldur áfram fyrir liðið og undirbúningur fyrir næsta leik hafinn. Næsti leikur verður á heimavelli, í Höllinni á móti KA þann 10.janúar 2023.

Því má svo bæta við að ferðir sem þessar eru alltaf skemmtilegar, nóg að læra, hvort sem er innan vallar eða utan og 3.flokkur einstaklega samrýmdur og léttur hópur.

Þjálfararnir Þorvaldur og Ingólfur þakka sínu liði fyrir að leggja allt sitt í helgina.