Ríflega 60 gestir voru á 35. súpufundi Þórs og Greifans

Í gær, föstudag fór fram í Hamri 35. súpufundur Íþróttafélagsins Þórs og veitingahússins Greifans.

Þetta var 3. og síðasti súpufundurinn þar sem sveitarstjórnarkosningarnar eru aðalumræðuefni og voru það fulltrúar Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og L-Listans sem voru í panel.

Það er alveg ljóst að það styttist í kosningar og bæði var það að fundargestir voru ríflega 60 sem og umræður fundarins voru ögn hvassari en á fyrri fundum og ljóst að nú eru framboðin að slíta sig frá hvort öðru og hið svokallað meirihlutahjónabandi er lokið, sem var við líði síðari hluta kjörtímabilsins í bæjarstjórn Akureyrar.

Miklar umræður eru og voru um hina margumræddu skýrslu um forgangsröðun uppbygginga íþróttamannvirkja og óhætt að segja að mjög skiptar skoðanir séu um hvort halda eigi sig við hana óbreytta að öllu leiti á komandi kjörtímabili eða hvort hún fái endurskoðun eins og gert er með svona stefnumarkandi plagg í opinbera geiranum t.d eins og í vegaáætlun sem endurskoðuð er á 3 ára fresti, sem og fjármálaáætlun ríkisins sem endurskoðuð er árlega.

Á fundinum í gær kom fram að Vinstri grænir vilja halda sig við skýrsluna óbreytta. Framsóknarflokkurinn opnar á að fara í viðræður um hana, en L listinn vill breyta henni strax eftir kosningar.

Það var hvasst spurt á stundum á fundinum og ljóst eins og allir vita að þessi málaflokkur er súpufundirnir fjalla um, Íþróttir, eru mikið tilfinningarmál víða enda málaflokkurinn mjög stór og snertir allar fjölskyldur hér í bæ að töluvert miklu leiti.

En fundurinn var góður, súpan afbragð eins og alltaf hjá Greifanum og vel útilátinn, fundarstjórinn röggsamur og sanngjarn, og virkilega var gaman að sjá þann fjölda fólks sem mætti og eins og að ofan kemur fram er greinilega farið að hitna í kolunum víða hér í bæ og baráttan um kjósendur orðin á stundum hatröm.

Samkvæmt skoðanakönnunum eru margir kjósendur óákveðnir ennþá svo það er enn lag.

Nú þegar einungis 7 dagar eru til stefnu er alveg ljóst að þeir kjósendur sem í boði eru fyrir flokkana hafa úr einhverju að moða er skoðað er hvaða stefnur stjórnmálaflokkarnir ætla að fara í þessum málaflokki, íþróttir og súpufundirnir hafa á liðnum vikum verið góður vettvangur fyrir framboðin að selja sig.

Við viljum eins og undanfarið þakka fulltrúum flokka sem komu í settið í dag, frá Vinstri Grænum Jönu Salome Ingibjargar og Jósepsdóttur. Frá Framsókn Sunnu Jóhannesdóttur og frá L- listanum Gunnari Líndal kærlega fyrir komuna og þeirra hlut í fundinum.

Einnig viljum við endurtaka þakkir okkar til hinna framboðana fyrir komuna á fyrri súpufundi.

Veitingahúsinu Greifanum viljum við þakka af heilum hug fyrir þann mikla stuðning sem þeir hafa sýnt okkur á súpufundunum.

Það er nú einu sinni svo að þegar við horfum yfir allt og allt erum við í sama liði eins og nýkjörinn formaður Þórs, Þóra Pétursdóttir komst svo skemmtilega að orði á fundinum, og þótt við séum ekki sammála um alla hluti eigum við að geta rætt um hlutina án þess að tala niður til hvors annars.

Súpufundirnir hafa verið málefnalegir og góður staður til að vera á til að ræða um íþróttir.

En það er með súpufundina að þeir eru haldnir í hádeginu og því miður eiga ekki allir heimangengt á þá.

Því hefur Íþróttafélagið Þór ákveðið að halda opin fund í félagsheimilinu Hamri með öllum framboðunum á þriðjudaginn 10. maí kl 20.00 og þar gefst íbúum Akureyrar sem ekki gátu komið á súpufundina, síðasta tækifærið að að spyrja framboðin spurninga er varða framtíðarsýn þeirra á íþróttamálum.

Allir eru velkomnir meðan húsrúm í Hamri leyfir og skorum við á íbúa þorpsins og aðra íbúa á Akureyri að nota þetta síðasta tækifæri fyrir kosningar til að ræða við frambjóðendur um íþróttamál.