Samstarf Þórs/KA og Völsungs innsiglað

Allur hópurinn sat fyrir á mynd að lokinni æfingu. Myndir: HarIngo
Allur hópurinn sat fyrir á mynd að lokinni æfingu. Myndir: HarIngo

 

Leikmenn í meistaraflokki og 2. flokki úr Þór/KA héldu til Húsavíkur á þriðjudaginn og héldu sameiginlega æfingu með meistaraflokki Völsungs. Eftir æfinguna buðu Húsvíkingar upp á mat í félagshúsinu og afslöppun í Sjóböðunum - og samstarf félaganna þannig innsiglað.

Í mars og apríl skiptu sjö leikmenn á 2. flokks aldri úr Þór/KA í Völsung og hafa spilað með Húsvíkingum í Lengjubikarnum. Liðið gerði sér reyndar lítið fyrir og náði sér í bikar - vann C-deild Lengjubikarsins eftir 1-1 jafntefli við Fjölni og vítaspyrnukeppni. Skipti þessara leikmanna í Völsung voru gerð í nánu samstarfi á milli félaganna, með eins konar heiðursmannasamkomulagi og í tilraunaskyni þar sem meistaraflokkur Völsungs var heldur fáliðaður og þurfti liðsstyrk til að tefla fram öflugu liði í Lengjubikarnum. Þær sem skiptu yfir í Völsung eru: Anna Guðný Sveinsdóttir, Arna Rut Orradóttir, Helga Dís Hafsteinsdóttir, Ísabella Júlía Óskarsdóttir, Júlía Margrét Sveinsdóttir, Marey Dóróthea Maronsdóttir Olsen og Ólína Helga Sigþórsdóttir.

Nú hafa þjálfarar og forráðamenn félaganna hist og farið yfir reynsluna, mótað stefnu um framhaldið og var það innsiglað með heimsókn meistaraflokks og 2. flokks Þórs/KA til Húsavíkur á þriðjudag. 

Frá þessu segir Jóhann Kristinn Gunnarsson í pistli sem birtist á thorka.is, en helstu punktar frá Jóhanni um samstarfið eru:

  • Samstarfið snýst um að leikmenn frá okkur í Þór/KA leika með Völsungi í 2. deildinni og styrkja þar með liðið og ná sér í dýrmæta leikreynslu sem bætir þær og styrkir okkar lið í framtíðinni.
  • Þjálfurum Völsungs stendur til boða að kynna sér starfið og fylgjast með undirbúningi fyrir leik í Bestu deildinni. Samstarf og samvinna þjálfara félaganna verður virk og gegnum video og samráð verður vel fylgst með okkar leikmönnum sem taka þátt í leikjum Völsungs.
  • Okkar leikmenn eru einnig gjaldgengar með U20 hjá Þór/KA í mótum sumarsins.
  • Leikmenn Völsungs sem eru í skóla á Akureyri eiga möguleika að æfa með Þór/KA.
  • Þegar efnilegir leikmenn Völsungs koma upp og þyrftu að máta sig við hærra getustig er Þór/KA þeirra fyrsta skref.

    Völsungur og Þór/KA spiluðu bæði leiki mánudaginn 1. maí og því var hluti af æfingunni endurheimt fyrir leikmenn sem mest spiluðu í þeim leikjum.


    Pétur Heiðar Kristjánsson, aðstoðarþjálfari mfl. Þórs/KA, Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, og Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, þjálfari Völsungs.