Seiglusigur á Leikni

Stuðningsmenn voru líflegir í stúkunni við Þórsvöllinn í dag, veitir ekki af þegar átta hlaupabrauti…
Stuðningsmenn voru líflegir í stúkunni við Þórsvöllinn í dag, veitir ekki af þegar átta hlaupabrautir skilja elskendur að.

Þórsarar unnu í dag sinn annan sigur á Leikni í sömu vikunni og sinn annan sigur í Lengjudeildinni þetta vorið.

Sterkur sunnanvindur setti svip sinn á leikinn og spiluðu Þórsarar með vindinn í bakið í fyrri hálfleiknum. Vindurinn átti líka nokkurn þátt í eina marki leiksins, en þá komst Valdimar Daði Sævarsson inn fyrir vörn Leiknis með laglegum snúningi, brunaði í átt að markinu, átti skot sem var varið, en hann náði sjálfur frákastinu og skoraði. Markið kom á 10. mínútu. Þrátt fyrir að vera með vindinn í bakið náðu Þórsarar ekki að nýta sér það til að skora fleiri mörk í fyrri hálfleiknum.

Leiknismenn náðu svo ekki að nýta sér það að vera með vindinn í bakið í seinni hálfleik þrátt fyrir að vera nokkuð með boltann á vallarhelmingi Þórsara. Færin sem gestirnir náðu að skapa sér fóru forgörðum, Aron Birkir bjargaði í markinu, skot misheppnuðust og þrátt fyrir að koma boltanum tvisvar í netið dugði það ekki því í fyrra skiptið var dæmd rangstaða og í seinna skiptið var boltinn farinn aftur fyrir áður en fyrirgjöfin kom.

Með sigrinum eru Þórsarar komnir með sex stig eftir þrjár umferðir, eru þar jafnir Aftureldingu á toppi deildarinnar. Þetta var fyrsti leikur þriðju umferðar og önnur lið því með leik til góða. Aðrir leikir umferðarinnar fara fram á morgun og mánudag. Næsti leikur Þórs er útileikur gegn Fjölni föstudaginn 25. maí kl. 18:30. Það er reyndar ekki útileikur í bókstaflegri merkingu því leikurinn hefur verið færður inn í Egilshöllina.