Þór mætir Víkingi í bikarnum í dag

Þórsarar mæta bikarmeisturum Víkings í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar á Þórsvellinum í dag kl. 17:30. Síðast þegar þessi lið mættust í bikarkeppni fóru Þórsarar í úrslitaleikinn.

Búast má við erfiðum leik hjá okkar mönnum enda Víkingar á mikilli siglingu í Bestu deildinni og eru ríkjandi bikarmeistarar, mögulega besta lið landsins um þessar mundir. En þeir hafa ekki þurft að mæta í Þorpið á þessu ári og spennandi að sjá hvernig Þórsvöllurinn, liðið og stúkan taka á móti þeim. 

Síðast þegar Þór og Víkingur mættust í bikarkeppni karla fór Þórsliðið alla leið í úrslitaleik þar sem liðið mætti KR í eftirminnilegum fimm stangar- og sláarskota leik án þess að okkar menn kæmu boltanum í netið. Þór vann þá Víking 3-1 á Þórsvellinum 20. júní.

Þessi lið hafa fimm sinnum mæst í bikarkeppninni, en síðasta viðureignin var einmitt 2011. Hinar viðureignirnar voru 1988, 1994, 2000 og 2003. Fjörugasta viðureignin var án efa á Víkingsvellinum 14. júlí 1994. Sá leikur endaði með 6-4 sigri Þórsara, ekki eftir framlengingu, ekki eftir vítaspyrnukeppni, heldur á 90 mínútum. Bjarni Sveinbjörnsson skoraði þrennu fyrir Þór í fyrri hálfleik, en auk hans skoruðu Guðmundur Benediktsson, Júlíus Tryggvason og Lárus Orri Sigurðsson mörk Þórs. 

Af þessum fimm bikarleikjum Þórs og Víkings á árunum 1988 til 2011 unnu Þórsarar tvisvar (1994 og 2011), en Víkingar þrisvar (1988, 2000 og 2003). Víkingsliðið mætti síðast á Þórsvöllinn í lok ágúst 2014 og hafði þá 1-0 sigur í leik liðanna í Pepsideildinni. Þegar teknar eru saman viðureignir þessara liða í öllum mótum eru Þórsarar með 20 sigra, 14 sinnum hefur orðið jafntefli og 24 sinnum hafa Víkingar sigrað, markatalan 89-94 í 58 leikjum.

 


Innbyrðis viðureignir Þórs og Víkings í bikarkeppni í mfl. karla. Skjáskot af ksi.is.