Þór tekur á móti Skallagrími í lokaleik ársins

Þór tekur á móti Skallagrími í lokaleik ársins

Á morgun, föstudag tekur Þór á móti Skallagrími í 13. umferð fyrstu deildar karla í körfubolta. Leikurinn fer fram í íþróttahöllinni og hefst klukkan 19:15.

Þegar liðin mætast situr Skallagrímur í áttunda sæti deildarinnar með 10 stig þ.e. liðið hefur unnið fimm leiki en tapað sjö. Á sama tíma situr Þór í tólfta sæti deildarinnar nú með tvö stig.

Sigurleikir Skallagríms eru gegn Fjölni (Ú), Þór (H), Hrunamönnum (Ú) Sindra (Ú) og Fjölni (H). Skallagrímur vann tvo síðustu leiki gegn sterku liði Sindra á útivelli og Fjölni heima.

Sterkasti póstur Skallagríms er bandarískur leikmaður liðsins Keith Jordan Jr. en hann er með 30,1 stig að meðaltali í leik, 10 fráköst og 4,1 stoðsendingu. Þá er Milorad Sedlarevic með 17 stig í leik og Davíð Guðmundsson með 10,4 stig.

Þjálfari Skallagríms er Atli Aðalsteinsson.

Ef að likum lætur munu okkar drengir mæta fullir sjálfstraust til leiksins en í síðasta leik gegn sterkum Sindramönnum landaði Þór fyrsta sigri vetrarins 116:101 . Í leiknum gegn Sindra sýndu okkar menn svo ekki verður um villst að þeir eru langt frá því að hafa lagt árar í bát. Strákarnir okkar vilja meira og þeir hafa sem sagt ekki sagt sitt síðasta.

Í þeim fimm leikjum sem Arturo hefur leikið með Þór er hann með 28,2 stig að meðaltali og Smári Jóns með 14,3. Þá hefur Toni Cutuk verði öflugur með 13,3 stig og 10,5 fráköst. Þá hafa þeir Baldur Örn og Kolbeinn Fannar verið að ná fyrri styrk og þá skilar Hlynur Freyr drjúgu verki.

Þegar liðin mættust í Borgarnesi í október hafði Skallagrímur öruggan sigur 106:74 í leik þar sem Keith Jordan fór mikinn og skoraði 35 stig og Davið Guðmunds var með 21 stig. Þá var Bergþór Ægir með 13 stig 10 fráköst og 12 stoðsendingar.

Hjá Þór var Tarojae Brake með 23 stig, Smári 14, Kolbeinn Fannar 12 og þeir Zak Harris og Toni Cutuk með 11 stig hvor.

Fróðlegt verður að sjá hvernig okkar menn mæta til leiks á morgun, verði sama barátta og vilji til staðar og í síðasta leik þar sem allir leikmenn liðsins lögðu hjarta sitt og sál í leikinn þá getum við átt von á hörkuleik.

Og þótt áhorfendur hafi oft verið fleiri en í síðasta leik var stemningin mögnuð þeir blésu leikmönnum Þórs baráttu í brjóst.

Fyrir leik verða seldir grillaðir hamborgarar, borgari og drykkur á 1.500 krónur

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn þá verður hann í beinu streymi á Þór TV.

Miðaverð á leikinn er 2000 krónur en frítt fyrir 16 ára og yngri.

Við hvetjum fólk til þess að kynna sér þá kosti sem fylgir því að vera meðlimur í Sjötta manninum stuðningsmannaklúbb deildarinnar. Um klúbbinn og skráningu má finna á eftirfarandi slóð https://www.thorsport.is/korfubolti/arskort

Stuðningsmenn fjölmennum á leikinn og styðja Þór til sigurs.

Áfram Þór alltaf, alls staðar