Þrír þjálfarar frá Þór á Global Handball Summit

Okkar menn í góðum félagsskap. Frá vinstri: Erlingur Richardsson, Carlos Martin Santos , Viktor Erni…
Okkar menn í góðum félagsskap. Frá vinstri: Erlingur Richardsson, Carlos Martin Santos , Viktor Ernir Geirsson, Þorvaldur Sigurðsson og Ingólfur Samúelsson.

Unglingaráð handknattleiksdeildar Þórs átti þrjá fulltrúa á Global Handball Summit í Serbíu 13.-15. júní. Heimasíðan fékk pistil frá þremenningunum um ferðina. 

Mánudagurinn 12. júní var tekinn snemma hjá þeim Viktori, Ingó og Valda. Mættir upp á Keflavíkurflugvöll kl. 5 og stefnan tekin á Serbíu.

Þar tekur við þriggja daga námskeið/fyrirlestrar á Global Handball Summit. Skemmst er frá því að segja að þarna voru margir þekktir lansliðsþjálfarar sem héldu tölu og fræddu okkur um sína sýn á hvernig þeir gera hlutina. Þar má nefna t.d. Paulo Pereira, þjálfara portúgalska karlalandsliðsins, Markurs Gaugsch, þjálfara þýska kvennalandsliðsins, Dragan Djukic, þjálfara ísraelska karlalandsliðsins, Toni Gerona, þjálfara serbneska karlalandsliðsins, Nenad Sostaric, þjálfara króatíska kvennalandsliðsins og marga fleiri. Svo má ekki gleyma Eyjapeyjanum og Íslandsmeistaranum Erlingi Richardssyni, sem fræddi okkur til dæmis um ferð sína með karlalið Hollands. Sem var mjög athyglisverð, þó ekki væri annað sagt. Greinilega mikill fagmaður þar á ferð. Og mikið lof skilið fyrir sína vinnu í gegnum árin. Þennan mann er gott að geta kallað vin sinn.


Viktor Ernir Geirsson, Paolo Perreira, landsliðsþjálfari Portúgals, Þorvaldur Sigurðsson og Ingólfur Samúelsson.

Þessir þrír dagar flugu býsna hratt, margt mjög gott sem þarna fór fram og ekki síður á kvöldin þegar mannskapurinn fór að blandast saman. Það var frábært að sjá að þarna voru allir komnir til að ræða handbolta og voru allir opnir fyrir umræðu við hvern sem er, meira að segja við Þorparana þrjá.

Upp úr stendur, að allir sem fram komu töluðu mikið um hve mikilvægt það væri að rækta hópinn/liðið sitt og hvað þjálfun í dag væri orðin mikil sálfræði. Halda öllum við efnið og ánægðum á sama tíma væri stór lykill af þessu. Og auðvitað fylgir svo öll taktík með. En þetta er greinilega orðið meira mál en það var, sem segir okkur að við hjá Þór séum að okkar mati í nokkuð góðum farvegi.


Tomislav Jagurinovski, fyrrum leikmaður Þórs, og Viktor Ernir Geirsson.

Ekki skemmdi fyrir að við fengum svo tækifæri til að spyrja tvo af bestu dómurum heimsins út í allt um reglur og slíkt. Í stuttu máli sagt þá hækkaði hitastigið töluvert þegar þeir byrjuðu. Og létu gestirnir spurningarnar flakka. Og komust þeir nokkuð vel frá sínu félagarnir.

Þessi ferð á eftir að sitja í höfðinu á okkur drengjunum lengi, ekki bara þar sem við gátum talað um handbolta frá því við vöknuðum, þar til við fórum að sofa. Heldur líka hvað þessir fyrirlesarar og allt þetta fólk sem að þessu kom, var almennilegt og gaf sér tíma til að bæði hlusta á okkur og gefa okkur ráð og lausnir.

Nokkuð öruggt að við myndum mæla með Global Handball Summit.

Okkar bestu þakkir til unglingaráðs Þórs.

Þorvaldur Sigurðsson
Ingólfur Samúelsson
Viktor Ernir Geirsson.


Markus Gaugisch, þjálfari kvennalandsliðs Þýskalands og besta kvennaliðs Þýskalands, og Viktor Ernir Geirsson.


Viktor Ernir ásamt leikmanni sem spilaði með landsliði Kuweit á Akureyri á HM 1995.