Knattspyrna: Konurnar heima, karlarnir úti

Bæði meistaraflokksliðin okkar í fótboltanum eiga leiki í dag. Þór/KA tekur á móti Keflavík í 5. umferð Bestu deildar kvenna, en karlalið Þórs mætir Fjölni í Egilshöllinni í 16 liða úrslitum Mjólkurbikars karla.

Leikur Þórs og Fjölnis fer fram í Egilshöllinni og hefst kl. 17. Þór vann KFA í 64ra liða úrslitum í Boganum, 5-1, og svo Gróttu á útivelli 3-0 í 32ja liða úrslitum. Fjölnir vann 4-2 útisigur á KH í 64ra liða úrslitum og svo 4-2 heimasigur á Selfyssingum í 32ja liða úrslitum. Þór og Fjölnir hafa aðeins einu sinni áður mæst í bikarkeppninni. Það var í lok maí 2018. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli, en Þórsarar unnu í vítaspyrnukeppni. Fjölnir vann báðar viðureignir þessara liða í Lengjudeildinni í fyrra, fyrst 6-0 sigur í Egilshöllinni og svo 1-0 sigur á Akureyri.

Þór/KA tekur á móti Keflavík í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna. Leikurinn fer fram í Boganum og hefst kl. 18. Keflvíkingar unnu fyrri leik liðanna í Bestu deildinni í fyrra, 2-1, á Akureyri, en Þór/KA vann 1-0 sigur í Keflavík. Þór/KA hefur byrjað mótið vel og er með níu stig eftir fyrstu fjóra leikina, situr í 3. sætinu. Keflavík situr í neðsta sæti deildarinnar án stiga úr fyrstu fjórum leikjunum.