Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Árlega verðlaunahátíðin Við áramót fór fram í Hamri í dag og lauk hátíðinni með að kjöri íþróttafólks Þórs árið 2025 var lýst.
Í kvennaflokki var fótboltakonan Hulda Björg Hannesdóttir kjörin og hlýtur hún nafnbótina í fyrsta sinn. Í karlaflokki var það fótboltamaðurinn Sigfús Fannar Gunnarsson sem var kjörinn og er það einnig fyrsta skiptið hans.
Íþróttakona Þórs 2025 - Hulda Björg Hannesdóttir

Hulda Björg hefur verið lykilmaður í meistaraflokki Þórs/KA undanfarin ár. 2025 spilaði hún alla leiki liðsins í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Lengjubikarnum, alls 30 leiki. Hún tók við fyrirliðastöðunni síðsumars og leiddi liðið á erfiðum og spennuþrungnum lokaspretti Íslandsmótsins þar sem hún hjálpaði liðinu að tryggja áframhaldandi veru í deild þeirra bestu.
Hulda Björg er ósérhlífin og setur liðið alltaf í fyrsta sæti. Hún leiðir liðið með krafti og dugnaði og er öðrum hvatning innan sem utan vallar. Hulda Björg á að baki 238 leiki með meistaraflokki Þórs/KA í KSÍ-mótum og Meistaradeild Evrópu, þar af eru 169 í efstu deild og fimm Evrópuleikir.
Íþróttamaður Þórs 2025 - Sigfús Fannar Gunnarsson

Sigfús var valinn besti leikmaður meistaraflokks Þórs keppnistímabilið 2025. Sigfús var lykilmaður í liði Þórs sem vann B-deildina í ár og var jafnframt markahæsti leikmaður deildarinnar með 15 mörk í 21 leik. Alls skoraði Sigfús 19 mörk í 28 leikjum á árinu þegar bikarkeppni og deildarbikar er talið með. Sigfús Fannar var valinn besti leikmaður deildarinnar af Fótbolta.net.
Sigfús er 23 ára gamall og hefur leikið alls 65 leiki í deild og bikar fyrir Þór og skorað 23 mörk. Framfarirnar hjá Sigfúsi í ár voru eins og sjá má á tölfræðinni gríðarlegar.
Sigfús Fannar er uppalinn hjá Þór og fór upp í gegnum alla yngri flokka félagsins. Á þeirri leið hefur hann þurft að leggja mikið á sig og unnið fyrir því að fá tækifæri með meistaraflokki félagsins. Hann er yngri iðkendum góð fyrirmynd þegar kemur að því að leggja sig fram á æfingum og gefast ekki upp þegar á móti blæs, sem gerist alltaf á einhverjum tímapunkti í öllum íþróttum.
Við óskum þessum flottu fulltrúum til hamingju með kjörið.
36 landsliðsmenn og 58 Íslandsmeistarar
Íþróttafólk hverrar deildar var heiðrað og einnig landsliðsfólk félagsins og þeir iðkendur sem unnu Íslandsmeistaratitil 2025. Hér að neðan gefur að líta umsögn deilda um sinn fulltrúa.
Íþróttafólk allra deilda Þórs 2025
Alls léku 36 iðkendur úr Þór landsleiki á árinu 2025; sjö í körfubolta, þrettán í fótbolta, einn í pílu, þrettán í rafíþróttum og tveir í handbolta. 58 iðkendur unnu Íslandsmeistaratitil og komu þeir frá hnefaleikadeild, handknattleiksdeild, knattspyrnudeild, píludeild og rafíþróttadeild.
Nánar verður fjallað um viðburðinn ásamt fleiri myndum á heimasíðunni á næstu dögum.