101 dagur í Lengjudeildina - Rýnt í undirbúningstímabilið

Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs.
Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs.

Meistaraflokkur karla í fótbolta lauk nýverið keppni í riðlakeppni Kjarnafæðimótsins, unnu riðilinn og munu mæta KA í úrslitaleik mótsins þann 25.mars næstkomandi. Við fengum Þorlák Árnason, þjálfara Þórs, til að fara yfir sviðið á þessu stigi undirbúningstímabilsins en keppni í Lengjudeildinni hefst með heimaleik gegn Vestra þann 6.maí næstkomandi.

„Kjarnafæðimótið hefur verið nýtt til að skoða einstaka leikmenn. Mótið er æfingamót og við höfum notað marga leikmenn eða alls 25 leikmenn. Við höfum verið að skoða mikið af yngri leikmönnum sem hafa ekki spilað áður með meistaraflokki auk þess að prófa nýjar leikstöður hjá einstaka leikmönnum,“ segir Þorlákur

Alls hlutu 10 leikmenn eldskírn með meistaraflokki í mótinu; léku sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk Þórs auk þess sem leikmenn með litla reynslu fengu stærri hlutverk. Hverjir hlutu sérstaka athygli þjálfaranna?

„Davíð Örn (miðvörður fæddur 2006) hefur komið inn í byrjunarliðið og spilað gríðarlega vel. Hann er sterkur líkamlega og góður varnarmaður sem hefur sýnt gott hugarfar. Hann er einbeittur á verkefnið og hefur komið öllum sem standa að liðinu skemmtilega á óvart,“ segir Þorlákur.

„Vilhelm Ottó hefur staðið sig gríðarlega vel og haldið áfram að bæta sig frá því í fyrra þegar hann fór á lán fyrri hluta sumars. Ingimar var okkar markahæsti leikmaður í Kjarnafæðimótinu og það hefur verið jákvæð þróun á hans leik. Að auki hafa ungu leikmennirnir allir nýtt tækifærið vel og vitum við betur í dag hvar þeir standa gagnvart því að spila með meistaraflokki,“ segir Þorlákur.

Auk Kjarnafæðimótsins hafa margir af þessum yngri leikmönnum félagsins verið í landsliðsverkefnum en átta leikmenn hafa verið boðaðir á landsliðsæfingar í mánuðinum, fjórir með U15, einn með U16, einn með U17 og tveir með U19.

Davíð Örn ásamt Bjarna Sigurðssyni, formanni knd, við samningaundirskrift síðasta sumar

Úrslit Þórs á undirbúningstímabilinu til þessa

Þór 4-0 KA 2

Þór 5-2 KF

Þór 1-2 KA

Þór 1-0 KFA

Þór 0-0 Magni

Lengjubikarinn næst á dagskrá

Næsti leikur hjá strákunum er gegn Keflavík í Boganum þann 12.febrúar næstkomandi en auk Keflavíkur eru Fjölnir, Fylkir, KA og Þróttur með Þórsliðinu í riðli í Lengjubikarnum.

„Markmið okkar í Lengjubikarnum er að þróa leik liðsins og leiksstílinn sem hefur ekki náðst hingað til vegna mikilla forfalla. Forföll sem höfðu einnig áhrif á hvernig við nálguðumst Kjarnafæðimótið,“ segir Þorlákur.

Fannar Daði Malmquist Gíslason, Nikola Kristinn Stojanovic, Sigurður Marinó Kristjánsson og Viðar Már Hilmarsson eru á meiðslalistanum og tóku ekkert þátt í Kjarnafæðimótinu auk þess sem Ion Perello tók ekkert þátt í janúarverkefnum liðsins.

Bjarki Þór Viðarsson meiddist við heimilisstörf um miðjan mánuðinn og einnig hafa Birgir Ómar Hlynsson og Hermann Helgi Rúnarsson verið að glíma við smávægileg meiðsli

Ion er væntanlegur til landsins í byrjun febrúar og verður með í fyrsta leik í Lengjubikar auk þess sem Birgir Ómar og Hermann Helgi ættu að vera búnir að ná sér góðum fyrir leikinn gegn Keflavík.

„Siggi er líklega á leið í aðgerð á mjöðm og það mun ráða því hvort og að hve miklu leyti hann getur tekið þátt í sumar. Nikola verður orðinn leikfær í mars eða apríl og Fannar Daði í apríl eða maí,“ segir Þorlákur.

Fjórir nýir leikmenn og von á fleirum

Auk þess sem ungir leikmenn hafa fengið eldskírn eru fjórir nýir leikmenn gengnir til liðs við Þór; Kristján Atli Marteinsson, Ómar Castaldo Einarsson, Rafnar Máni Gunnarsson og Valdimar Daði Sævarsson.

„Í fyrra misstum við mikið af leikmönnum og ákváðum að vera ekki að sækja marga leikmenn heldur skapa rými fyrir yngri leikmenn. Í heild tókst það vel. Núna viljum við sækja álíka marga leikmenn og við höfum misst og því er stefnan að taka inn 2-3 leikmenn í viðbót áður en Lengjudeildin hefst,“ segir Þorlákur.

Er því áfram verið að vinna í leikmannamálum og til að mynda er erlendur miðjumaður að koma til reynslu í byrjun febrúar og mun æfa með liðinu í rúma viku. Hvað hefur Þorlákur um nýju leikmennina að segja?

„Mjög ánægður með nýju leikmennina sem eru komnir til okkar og byrjaðir að spila. Þeir eru að aðlagast vel og hafa komið vel inn í hópinn. Rafnar er góður sóknarbakvörður sem hefur öðlast mikla reynslu í meistaraflokki hjá Völsungi. Ómar kemur beint inn fyrir Auðunn og það er mjög gott fyrir markmannsmál félagsins að Auðunn sé farinn á lán til að spila. Valdimar hefur verið að spila kantstöðurnar og komið vel inn í liðið.“

Nýjasta viðbótin barst í gær þegar tilkynnt var um komu Kristjáns Atla.

„Ég fylgdist vel með honum hjá Aftureldingu og Kórdrengjum. Hann er sterkur djúpur miðjumaður, góður varnarlega og góður í fótbolta. Fyrir mér var hann einn besti miðjumaður Lengjudeildarinnar sumarið 2021 og við erum gríðarlega sáttir með að hafa náð honum til okkar,“ segir Þorlákur.

Sem fyrr segir er næsti leikur Þórs gegn Keflavík sunnudaginn 12.febrúar í Boganum og verður spennandi að sjá strákana spreyta sig gegn Keflvíkingum sem voru með öflugt lið í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.

Vertu með á samfélagsmiðlum!

Utan vallar er jafnan heilmikil vinna í gangi og til að mynda er búið að bætast í hóp þeirra sem sjá um samfélagsmiðla Þórsliðsins. Er markmiðið að veita stuðningsmönnum frekari innsýn á allt sem tengist liðinu. Að auki koma allar helstu fréttir að sjálfsögðu inn á heimasíðuna.

Við hvetjum Þórsara til að fylgja okkur út um allt og vera vel með á nótunum þegar allt fer á fullt í boltanum í vor.

Þór - Fótbolti á Facebook

Þór - Fótbolti á Twitter

Þór - Fótbolti á Instagram

ÞórTV sýnir alla leiki meistaraflokks á undirbúningstímabilinu