Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Á vordögum 1931 réðust Þórsfélagar í að byggja búningaskýli við gamla íþróttavöllinn en fram að því hafði ekkert búningaskýli verið við völlinn, aðstæður heldur bágbornar. Búningaskýli þetta var svo síðar oftast kallað „Þórs-skúrinn“. Á þessum árum hafði félagið marga sérfræðinga í þessari grein, byggingarlistar innan sinna raða og lögðu flestir gjörva hönd á plóginn. „Ef ég man rétt“ var Páll Friðfinnsson yfirsmiður en Guðmundur Árnason undirtylla, aðrir þrælar voru „legis“ var skrifað í dagbók Gísla Magnússonar fyrrum ritara.
Var unnið kappsamlega við skúrinn „og ef ég man rétt“ voru þar mörg orð í „tíma“ og „ótíma“ töluð, eins og við er að búast, þar, sem Stefán Halldórsson var með auk allra annarra legáta. Um sjálfa byggingu búningaskýlisins sagði einnig í dagbók Gísla “Skúrvinnan var á við góða skemmtifundi, og ef svo færi að fjalirnar fengju einhvertíma mál, og segðu frá því, sem þær heyrðu við Þórsvöllinn, þá rifnuðu margir alvörumenn af hlátri". [Þegar Páll Friðfinnsson smiður sagði frá og vildi leggja áherslu á mál sitt þá sagði hann gjarnan „ef ég man rétt þá...byggði ég skúrinn“.]
Voru þetta sannarlega fyrstu byggingarframkvæmdir á vegum Þórs, sem án efa þótti bara ansi gott í þá daga. Skúrinn stóð að öllum líkindum fram til ársins 1946 en í nóvember 1945 tók félagið ákvörðun að auglýsa skúrinn til sölu/niðurrifs þar, sem hann þótti ekki lengur hentugur fyrir starfsemi félagsins.
Sagan segir að þegar skúrinn var seldur hafi hann verið tekin niður og endurbyggður á Lækjarbakka við Eyjafjarðarbraut gengt flugvellinum, sem íbúðarhús. Síðar var byggt við húsið og það stækkað talsvert. Það var svo í september 2003 að Slökkvilið Akureyrar notaði húsið til brunaæfinga og kveikti var í húsinu, sem staðið hafði autt um hríð. Íkveikjan var liður í brunaæfingu nýliða í slökkviliðsins.
Stjórn Þórs barst eitt sinn bréf frá heiðvirðum bæjarbúa þar, sem hann upplýsir um skemmdaverk á Þórs-skúrnum, sem hann var vitni af. Í bréfi þessu, sem er ódagsett segir ,,Ég var á leið út á golfvöll á þriðjudagskvöld síðastliðið og gekk eins og vant var fram hjá Íþróttaskúr ykkar, og gaf þar að líta leiðinlegar aðfarir tveggja drengja, sem nú eru alþekktir fyrir skemmdarverk sín hér í bænum.
Höfðu þeir það fyrir stafni að brjóta þær rúður, sem eftir voru í skúrnum og ég hefi fulla ástæðu til þess að halda að þeir eigi sjálfir þátt í öllum rúðubrotum í Íþróttaskúrum K.A. og Þórs yfirleitt.
Og nú vil ég gefa ykkur upp nöfn þessara unglinga í þeirri von að þið talið við foreldra þeirra, sem geta sýnt þeim eitthvert nýtt markmið og áminningar og góðar ráðleggingar til frekari eftirbreytni.
Í lokin gefur hann upp nöfn drengjanna, forráðamenn þeirra og heimilsföng. En tekur svo fram að nöfnin séu birt án ábyrgðar.
Við Þórsskúrinn 1933. F.v: Ágúst Haulblaub, Sigmundur Björnsson, Jón P. Hallgrímsson, Gísli Magnússon og Jónas Traustason.
Þórslið 1939. Aftari Fv: Sigtryggur Ólafsson, Lárus Pálsson, Kristján Jóhannsson, Þorsteinn Svanlaugsson, Finnur Sigurðsson og Guðmundur Guðmundsson. Miðröð F.v: Hugi Ásgrímsson, Stefán Aðalsteinsson og Gunnar Konráðsson sitjandi fremst: Baldur Arngrímsson.