Árni Óðinsson gerður að heiðursfélaga

Árni Óðinsson, fyrrverandi formaður Þórs og nú heiðursfélagi, ásamt Nóa Björnssyni, formanni Þórs. M…
Árni Óðinsson, fyrrverandi formaður Þórs og nú heiðursfélagi, ásamt Nóa Björnssyni, formanni Þórs. Mynd: Ármann Kolbeinsson.

Árni Óðinsson var í gær sæmdur heiðursfélaganafnbót í Íþróttafélaginu Þór á samkomu í tilefni af 108 ára afmæli félagsins.

Nói Björnsson formaður flutti eftirfarandi ræðu um Árna við athöfnina:

Árni Óðinsson rafvirki og fyrrum íþróttamaður var og er einn af betri skíðamönnum sem Akureyringar hafa átt. Margfaldur Íslandsmeistari á skíðum í svigi og stórsvigi og ólympíufari.

Í nærri fjóra áratugi hefur Árni sinnt miklu og öflugu félagstarfi fyrir Þór. Fyrst kom hann inn í starf unglingaráðs knattspyrnudeildar m.a. sem formaður þess um árabil. Þá lá leið hans í stjórn knattspyrnudeildar sem formaður.

Eftir margra ára starf fyrir knattspyrnudeild lá leið hans inn í aðalstjórn. Fyrst sem varaformaður á árunum 2006-2010 og svo sem formaður félagsins 2012-2018.

Árni sat í framkvæmdarnefnd fyrir Þór frá árinu 2007 þegar uppbygging á félagssvæði Þórs var í undirbúningi og á framkvæmdatímanum.

Þeir sem starfað hafa með Árna í félagsmálum eru sammála um að hann hafi í hvívetna verið sanngjarn og afar réttsýnn og þægilegur í öllu viðmóti.

Árni var sæmdur gullmerki Þórs á 90 ára afmæli félagsins í júní 2005, en áður hafði hann hlotið silfurmerki félagsins. Einnig gull- og silfurmerki KSÍ. Þá hlaut Árni heiðursviðurkenningu Frístundaráðs Akureyrar árið 2018.


Íþróttafélagið Þór óskar Árna til hamingju með heiðursfélaganafnbótina og þakkar honum farsæl störf í þágu félagsins.

Myndaalbúm frá athöfninni - Ármann Kolbeinsson.