Bjarni Guðjón og félagar í U19 unnu sögulegan sigur

Bjarni Guðjón eftir sigurinn á Englendingum.
Bjarni Guðjón eftir sigurinn á Englendingum.

Íslenska U19 ára landsliðið í fótbolta er komið í lokakeppni EM 2023 og er það í fyrsta skiptið sem Ísland kemst í lokakeppni EM.

Strákarnir tryggðu sig áfram með 2-0 sigri á Ungverjum í kvöld en áður hafði liðið unnið frækinn sigur á firnasterku liði Englendinga 1-0 eftir að hafa gert 2-2 jafntefli við Tyrki í fyrsta leik milliriðilsins sem leikinn var á Englandi.

Þórsarinn Bjarni Guðjón Brynjólfsson var í leikmannahópi Íslands í verkefninu og átti góða innkomu af bekknum í leiknum gegn Ungverjum í kvöld. Bjarna var skipt inná miðjuna á 65.mínútu en þá var staðan í leiknum enn markalaus. Tveimur mínútum síðar komst Ísland yfir með marki Orra Óskarssonar og Hilmir Rafn Mikaelsson gulltryggði sigur íslenska liðsins með marki í uppbótartíma.

Í íslenska liðinu er annar drengur sem sleit fyrstu takkaskónum sínum í Þorpinu; Kristian Nökkvi Hlynsson sem nú leikur með hollenska stórveldinu Ajax. Þá hafa Þórsararnir Aron Ingi Magnússon og Kristófer Kristjánsson tekið þátt í undirbúningi liðsins undanfarið ár og var Aron Ingi á meðal leikmanna þegar Ísland komst áfram úr fyrri undanriðlinum í nóvember.

Við óskum Bjarna, Kristian og öllum öðrum í íslenska hópnum til hamingju með þennan áfanga.

Íslensku strákarnir fagna í kvöld. Bjarni Guðjón númer 13. Mynd frá KSÍ.