Fimm stiga tap í Hólminum

Skjáskot úr Veo-live útsendingu Hólmara.
Skjáskot úr Veo-live útsendingu Hólmara.

Litlu munaði að Þórsurum tækist aftur að ná sigri gegn Snæfelli á lokamínútunni, en í kvöld vantaði herslumuninn. Þriðji leikurinn verður á Akureyri á föstudag.

Þórsliðinu gekk fremur brösuglega að koma boltanum í körfuna á upphafsmínútunum, aðeins tvö stig frá Þór á fyrstu fjórum mínútunum, en heimaliðið þó ekkert langt á undan. Þristar frá Maddie og Evu hjálpuðu við að halda í við heimaliðið. Munurinn þrjú til sjö stig og báðum liðum nokkuð mislagðar hendur – eða bara verið að spila góða vörn. Kannski blanda af hvoru tveggja. Snæfell með fjögurra stiga forystu eftir fyrsta fjórðung, 15-11.  

Þórsarar jöfnuðu síðan í 15-15 snemma í öðrum fjórðungi og áfram hart barist á báða bóga. Um miðbik annars fjórðungs kom kafli þar sem Snæfell skoraði níu stig í röð og svo aftur fimm síðustu stigin áður en fyrri hálfleik lauk og munurinn kominn upp í 11 stig, 34-23 í leikhléi. Ótrúlega lítið skorað og 23 stig í fyrri hálfleik væntanlega eitthvað sem okkar fólk fór ekki sátt með inn í klefa í leikhléinu.

Okkar stelpur unnu þennan mun smátt og smátt upp þegar leið á þriðja fjórðung, munurinn kominn niður í sex stig, en aftur náði Snæfell að komast níu stigum yfir. Þórsarar unnu þriðja fjórðunginn með tveimur stigum og munurinn níu stig þegar honum lauk. Leikurinn þróaðist eiginlega mjög svipað og fyrsti leikur liðanna í Höllinni á laugardaginn. Eftir að Snæfell hafði leitt nánast allan leikin fóru Þórsarar aðeins að saxa á forskotið þegar langt leið á síðasta fjórðunginn. Náðu þá muninum niður í fjögur stig, en Snæfell aftur með sex stiga forystu þegar 2:27 voru eftir.

Liðin skiptust síðan á að missa boltann og hitta ekki úr skotunum og tíminn leið og leið. Þegar 48 sekúndur voru eftir minnkaði Maddie muninn aftur í fjögur stig með því að hitta úr tveimur vítaskotum. Í næstu sókn geigaði skot frá Snæfelli. Eva tók frákast, brotið á henni og hún hitti úr báðum vítaskotunum, munurinn kominn niður í þrjú stig. Snæfell fór í sókn, en missti boltann út af. Þrjátíu sekúndur eftir og Danni tekur leikhlé. Lokahnykkurinn náðist því miður ekki og tvisvar geigaði þriggja stiga skot frá okkar stelpum og Snæfell náði frákastinu í seinna skiptið, brotið og tvö vítaskot sem bæði fóru ofan í. Þá var of lítið eftir og fimm stiga tap í Hólminum niðurstaðan.

Tölurnar

15-11 • 19-12 • 34-23 • 20-22 • 10-14 • 64-59

Maddie Sutton var stigahæst Þórsara og með flest framlagsstig. Hún skoraði 23 stig og tók 12 fráköst. Eva Wium Elíasdóttir skoraði 14 og tók átta fráköst, Tuba Poyraz með 13 stig og 12 fráköst.

Sjáumst í Höllinni á föstudaginn

Nú tekur við þriðja viðureign liðanna sem fram fer í Íþróttahöllinni á Akureyri föstudaginn 31. mars. Leikurinn hefst kl. 17:00. Ástæða er til að hvetja Þórsara og aðra Akureyringa til að mæta í Höllina og hvetja stelpurnar því eins og í fyrri leikjum þessara liða í vetur er alveg óhætt að lofa baráttuleik og spennu.

Með tapinu í kvöld er ljóst að liðin þurfa að leika að minnsta kosti fjóra leiki því það lið sem fyrr vinnur þrjá fer áfram í úrslitaviðureignina gegn Stjörnunni eða KR. Fjórði leikur liðanna verður í Stykkishólmi sunnudaginn 2. apríl. Ef til þess kemur að bæði lið hafi þá unnið tvo leiki verður fimmti leikurinn á Akureyri miðvikudaginn 5. apríl.

Palli Jóh keyrði stelpurnar í Hólminn og tók myndavélina með þannig að við gerum ráð fyrir myndaalbúmi hér á Þórssíðunni þegar líður á morgundaginn.