Frábær árangur Þórs á síðasta Goðamóti vetrarins

Tvö Þórslið unnu til gullverðlauna um helgina.
Tvö Þórslið unnu til gullverðlauna um helgina.

Goðamót 5.flokks kvenna fór fram í Boganum um helgina þar sem 36 lið frá 11 félögum tóku þátt en auk Þórs tóku þátt í mótinu Afturelding, Breiðablik, Fjarðabyggð, Hvöt, Höttur, KA, KF/Dalvík, Tindastóll, Vestri og Völsungur.

Þór tefldi fram fimm liðum en rétt tæplega 50 stelpur eru að æfa í 5.flokki um þessar mundir.

Árangurinn var afar góður en Þór stóð uppi sem sigurvegari í keppni A-liða en Breiðablik hafnaði í öðru sæti og Afturelding í því þriðja.

Í keppni C-liða bar Þór einnig sigur úr býtum með glæsibrag þar sem stelpurnar sigruðu alla 8 leiki sína í mótinu og unnu því örugglega en Afturelding hafnaði í 2.sæti og Völsungur í því þriðja. Hin þrjú Þórsliðin stóðu sig einnig með prýði og hlutu meðal annars silfurverðlaun.

Þjálfarar 5.flokks kvenna eru Margrét Árnadóttir, Arna Kristinsdóttir og Gabríel Gyðuson.

Um var að ræða síðasta Goðamót vetrarins en þetta var 78.Goðamótið í sögunni. Á mótunum fjórum í vetur mættu rétt rúmlega 1600 keppendur samtals á öll mótin sem öll fóru fram í Boganum.

Knattspyrnudeild Þórs vill færa öllum sem komið hafa að Goðamótunum í vetur með einum eða öðrum hætti bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og hlökkum til að halda áfram með Goðamótaröðina næsta vetur.

Sigurvegarar í keppni A-liða ásamt þjálfarateymi flokksins

Sigurvegarar í keppni C-liða