Glæsilegur árangur Þórs á Barcelona Cup

Þór 1 tekur á móti sigurverðlaunum á Barcelona Cup.
Þór 1 tekur á móti sigurverðlaunum á Barcelona Cup.

3.flokkur karla í fótbolta hefur undanfarna daga dvalið á Spáni, nánar tiltekið í Barcelona þar sem þeir æfðu og tóku þátt í Barcelona Cup, alþjóðlegu fótboltamóti sem fram fór í dag og í gær.

Þór tefldi fram tveimur liðum á mótinu og gerði Þór 1 sér lítið fyrir og vann mótið með töluverðum yfirburðum. Strákarnir mættu jafnöldrum sínum frá Írlandi, Spáni, Norður-Írlandi og Svíþjóð og fór að lokum svo að okkar menn unnu alla fimm leiki sína í mótinu með markatölunni 24-0.

Þórsarar hlutu öll einstaklingsverðlaun í þessum aldursflokki þar sem Frank A. Satorres Cabezas var valinn besti leikmaður mótsins, Sigurður Jökull Ingvason var valinn markmaður mótsins og Peter Ingi Helgason endaði markahæstur með 7 mörk.

Frank, Peter og Sigurður.

Þór 2 stóð sig einnig vel; komst upp úr sínum riðli og hafnaði að lokum í 4.sæti í sínum aldursflokki eftir naumt tap í leiknum um 3.sæti. Þór 2 spilaði alls sex leiki í mótinu, sigraði þrjá og tapaði þremur.

Lið Þór 2 tapaði naumlega í leiknum um 3.sæti

Þjálfarar flokksins eru Aðalgeir Axelsson, Ármann Pétur Ævarsson og Steinar Logi Rúnarsson. Við óskum strákunum og þjálfurum þeirra til hamingju með þennan flotta árangur.